11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

235. mál, loðdýrarækt

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð, enda langt liðið á fundartíma hér, þó að hér sé um að ræða mjög veigamikið mál sem vissulega hefði þurft nokkuð ítarlega umræðu um eins og fleiri mál hér raunar. Nauðsyn þess að tekið verði skipulega á þessum málum er hafin yfir allan efa. Staðreyndin er sú að við höfum verið alveg ótrúlega sein í því að taka við okkur í þessum efnum og gera okkur grein fyrir því að það þyrfti að huga að öllum þáttum þessa máls. Menn hafa lagt hér á ofuráherslu án þess að gera viðhlítandi ráðstafanir á þeim sviðum sem hv. flm. leggur einmitt megináherslu á í sinni till.

Um leið og menn stefndu að því að snúa í svo ríkum mæli yfir á braut loðdýraræktar vegna samdráttar í hefðbundnum búskap - því að sú stefna var tekin að verulegu leyti og menn hafa fylgt henni í æ ríkara mæli - hefði þurft að skoða þessa grein með tilliti til þeirrar framtíðarsýnar sem þar væri æskilegust, bæði hvað varðar skipulagningu hennar og því hvernig henni yrði dreift um landið.

Hv. flm. talaði um kapp og að það væri meiri nauðsyn á því að huga að arðsemissjónarmiðum og skynsemissjónarmiðum í því efni og ég tek undir það með honum. Hér hefur verið farið með ekki bara kappi heldur ofurkappi í ýmsum greinum. Sérstaklega hafa menn ekki gert sér grein fyrir því í upphafi hversu ríkur þáttur og meginundirstaða fóðurstöðvarnar eru. Sá þáttur virtist næstum gleymast í allri þessari umræðu um að menn skyldu taka upp loðdýrarækt. Auðveld fóðuröflun og nálægð við fóðurstöð er þó ein frumforsendan fyrir því að þetta geti heppnast. Því meiri ástæða er til enn frekari skipulagningar og hagræðingar í þessum rekstri og að tryggja það sem best að viðunandi arður náist svo sem flm. gat um.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það að í þessum efnum hafa gerst ákveðin slys. Menn hlaupa ekki út í atvinnugrein af þessu tagi algerlega reynslulausir, það er útilokað. Ég veit að íslenskir bændur eru vel af guði gerðir en fyrr má nú vera samt sem áður að þeir reikni með því að þeir geti nokkurn veginn án minnsta undirbúnings farið yfir í svo viðkvæma og vandasama grein sem þessa.

Að kynningarmálum, fræðslumálum í þessu efni hefur alls ekki verið staðið á þann hátt sem skyldi. Menn hafa hreinlega ekki getað það nema þá þeir sem hafa farið erlendis til að afla sér ákveðinnar þekkingar, þó um mjög skamman tíma. Það er ekki fyrr en þá núna, að búin fóru að verða fleiri og menn fóru að geta nýtt sér þekkingu annarra, að menn hafa aðstöðu til að ná sér í nauðsynlega þekkingu á þessum málum þó að ótrúlega vel hafi þetta blessast hjá mönnum. En það sýnir kannske einmitt hæfni íslenskra bænda til að laga sig að nýjum aðstæðum og dugnað þeirra við að koma þessari grein svo myndarlega á fót sem þó hefur tekist þrátt fyrir þá annmarka sem ég var að lýsa.

Til viðbótar þessu hefur verið ákveðið aðstöðuleysi mjög víða. Ég talaði um fóðurstöðvarnar áðan. Þær hafa verið visst vandamál. Vissulega hefur fyrirgreiðsla verið í lágmarki. Hún hefur þó farið mjög vaxandi og orðið betri með árunum.

Ég játa það að þó að ég leggi ekki lítið upp úr því að við eigum að byggja hér upp loðdýrarækt hef ég ekki verið einn af þeim sem hafa álitið að öll vandamál íslensks landbúnaðar yrðu leyst með loðdýraræktinni einni saman. Mér dettur ekki í hug annað en halda því fram hér og nú eins og ég hef gert annars staðar. Mér hefur þótt sem menn legðu allt of mikið upp úr þessu og hefðu þess vegna ekki á þá aðgát sem nauðsynleg er til að hafa a.m.k. eðlilega framtíðarsýn til þessara mála í heild sinni, sem ég hygg að hafi vantað mjög mikið upp á. Ef þetta er gert á þann skipulagslausa hátt sem raunin hefur orðið - og af því verða meiri háttar slys - getum við ímyndað okkur að það er ekki greiði við íslenskan landbúnað og hinar dreifðu byggðir að standa þannig að málum.

Ég styð því þessa till. eindregið og vona það eitt að hún sé ekki of seint fram komin eða verði ekki of seint samþykkt hér á hinu háa Alþingi heldur hrundið í framkvæmd til þess að við getum séð þennan atvinnuveg blómstra í framtíðinni til gagns fyrir íslenskan landbúnað og hinar dreifðu byggðir.