29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

40. mál, erfðalög

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir hans svar, en það veldur mér að sjálfsögðu vonbrigðum. Það ætti ekki að vera ástæða til þess fyrir löggjafann að setja inn í lög ákvæði um að lögum sé framfylgt.

Hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavík hef ég fengið þær upplýsingar að milli 50 og 100 aðilar hafi þegar látið ganga frá viljayfirlýsingu um gagnkvæman rétt til setu í óskiptu búi. Það eru auðvitað allt of fáir. Embættið telur sig hins vegar ekki geta veitt þá þjónustu að semja slíka yfirlýsingu á þeim forsendum að komi til ágreinings við skipti sé úrskurðarvaldið einnig hjá embættinu. Þó telja menn við embættið að dómsmrn. geti kveðið á um framkvæmd ef það óskar.

Skv. gjaldskrá Lögmannafélags Íslands, þurfi menn að leita til lögmanna, þá mun verð fyrir að setja saman texta sem þennan, sem er aðeins örfáar línur, kosta að lágmarki 2000 kr. og vafalaust gæti sú upphæð orðið hærri. Segir sig sjálft að fjölmargir myndu skjóta þeim útgjöldum á frest við núverandi launakjör í landinu. síðan þarf notarius publieus að staðfesta erfðaskrána og hér í Reykjavík mun hann raunar hafa reynst fólki hjálplegur einnig við samningu. En það eru í raun og veru aðeins hans persónulegu liðlegheit.

Sannleikurinn er sá að ef lög eru sett til hagsbóta fyrir fólkið landinu er auðvitað framkvæmdavaldsins að sjá til þess að þau komi fólki að notum. Á þessu er auðvitað hægt að ráða bót ef menn vilja. Það er vandalaust að staðla yfirlýsingu sem nægir til heimildar til setu í óskiptu búi við lát maka. Og embættunum ætti beinlínis að vera skylt að upplýsa þá sem erfðaskrá vilja gera um önnur ákvæði erfðalaga sem máli skipta í þessu sambandi.

Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. dómsmrh. að taka af skarið og ræða við embættismenn sína sem um þessi mál fjalla og finna auðvelda og þægilega leið fyrir alla aðila til að ganga frá þessum málum svo að lagabreyting sú sem þarna var gerð á erfðalögum þjóni tilgangi sínum, jafnt fyrir fólkið í landinu og þá sem við skiptarétt vinna. Ég held að það væri verulegur sparnaður, bæði á tíma, orku og fé, ef þessi mál væru að nokkru kynnt og séð til þess að fólk þyrfti ekki að leggja út stórfé til þess að láta svo einfaldan hlut komast í framkvæmd.