11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

199. mál, alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó

Frsm. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 7 26. febr. 1975, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó.

Nefndin tók frv. til umræðu og fékk á sinn fund Magnús Jóhannesson siglingamálastjóra til viðræðu um efni þess, en hér er nánast um að ræða alþjóðasiglingareglur þrátt fyrir þetta langa nafn á frv.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt. En þess skal getið að eftir að nefndin hafði afgreitt frá sér frv. hafði fulltrúi utanrrn. samband við nefndina og óskaði eftir því að fá að koma á framfæri athugasemdum sem fela í sér nákvæmari samræmingu við enska texta alþjóðasamningsins. Nefndin hefur fallist á að taka þetta til athugunar og vil ég að það komi fram hér. Við munum óska eftir því að taka þessar athugasemdir til athugunar milli 2. og 3. umræðu.

Ég vil að þetta komi fram um leið og ég mæli fyrir nál. Að sjálfsögðu munum við taka þessar athugasemdir til umræðu og afgreiðslu áður en frv. kemur til 3. umræðu en viljum óska eftir því að því verði eigi að síður vísað til 3. umræðu nú.