11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

248. mál, póstlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég heyrði því miður ekki alla framsöguræðu hæstv. ráðherra, þannig að það má vera að hann hafi skýrt það mál sem ég ættaði að spyrja hér um, en það er varðandi það sem segir hér í athugasemdum. „Í áliti sínu til ráðherra," segir hér, með leyfi forseta, „lagði nefndin til að það nýmæli yrði tekið inn í frv. að póstgíróstofunni yrði heimilað að veita viðskiptamönnum sínum hliðstæða þjónustu og bankar og sparisjóðir veita varðandi inn- og útlán. Við umfjöllun ráðuneytisins á frv. var ekki fallist á þessa tillögu.“

Nú starfar póstgíróstofan að töluverðu leyti sem banki. Þó að hún, að mér skilst, hafi ekki leyfi til að auglýsa sína þjónustu eru margir sem hafa þar t.d. launareikninga alveg á sama hátt og í bönkum, m.a. vegna þess að þar fá þeir, að ég held, töluvert hærri vexti en bankar greiða af ávísanaheftum og á ýmsan hátt betri þjónustu en bankarnir veita eða kannske ætti ég að segja aðra þjónustu, öðruvísi þjónustu.

Á öllum Norðurlöndunum eru starfræktir póstbankar og póstgíróbankar með mjög umfangsmikla starfsemi og ég veit að póststofurnar hafa haft leyfi til gjaldeyrisviðskipta óhjákvæmilega vegna þess að þær taka við greiðslum í gjaldeyri frá erlendum póstgíróbönkum. Þess vegna er mín fsp. til ráðherra þessi: Hvaða breytingar hefur þetta frv., ef að lögum verður, í för með sér á þeirri starfsemi sem póstgíróstofan annast nú?