11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

248. mál, póstlög

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Varðandi þær fsp. sem fram hafa komið, fyrst fsp. hv. 8. landsk. þm., vil ég segja að einkaréttur Pósts og síma verður að vera ef við ætlum að halda uppi starfrækslu vítt og breitt um landið. Ef við gefum eftir þennan einkarétt er það ákaflega miður farið þar sem hið opinbera á að halda uppi starfseminni, en fyrir fram er vitað að tap er á henni. Það var það sem Vilmundur kallaði hérna í gamla daga „sósíalisma andskotans“ ef maður má nota þau orð. Ég tel því að þetta þurfi að vera.

Hins vegar hefur í framkvæmd verið beitt stórauknu frjálsræði með tilkomu nýrra flutningsaðila þannig að það sem áður fór í gegnum póstinn fer nú að miklum meiri hluta eftir öðrum flutningaleiðum, t.d. með flugfélögum, sérleyfisbifreiðum o.s.frv. Jafnvel innanbæjar lætur pósturinn frelsi yfirleitt sitja í fyrirrúmi þannig að ekki eru settar skorður við því að fyrirtæki og stofnanir beri út sendingar. Í sumum tilfellum má auðvitað um það deila, en í allri túlkun póstlaga hefur það verið túlkað á mjög frjálslegan hátt eins og á að gera, að mínum dómi. Breytingarnar í frv. eru ekki í þá átt að þrengja, eða auka einkarétt Pósts og síma, heldur þveröfugt. Lagagreinum er fækkað, þær eru gerðar skýrari og það er gert mögulegt að túlka starfsemina miklu frekar í reglugerðum sem er auðvitað nauðsynlegt því að reglugerðir þarf oft að endurskoða og breyta, en of mikið er í lagt að breyta lögum með tiltölulega stuttu millibili.

Varðandi fsp. hv. 5. landsk. þm. og hv. 4. þm. Vesturl., þá skýrði ég frá því sem um var spurt í minni framsöguræðu. Gíróþjónustan er óbreytt eins og hún er nú. Ég sagðist hafa ákveðið að taka ákvæði um aukningu á gíróþjónustunni út úr frv. Ég vil heldur setja það í vald þingnefndar og þingdeildarinnar hvort hún sér ástæðu til að taka upp þau ákvæði. Það hefur komið fram ákveðinn vilji frá aðilum innan póststjórnarinnar og fleirum að þessu sé breytt. En við höfum aftur heyrt æðimargar ræður fluttar um mikinn fjölda banka í þessu litla þjóðfélagi svo að ég vildi a.m.k. ekki vera faðir að þessu barni. Ég ætlaði að gefa öðrum tækifæri til þess.