29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

40. mál, erfðalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Birting laga er lögákveðin og þar með hefur verið mótaður sá farvegur sem löggjafarvaldið hefur talið rétt til þess að kynna lög. En ég held að það hljóti að vera hverjum og einum einstaklingi í sjálfsvald sett hvort hann notar sér þá heimild sem fyrrgreind lög veita. Hv. fyrirspyrjandi sagði að það væri mikilvægt að fólk notaði sér heimildina. Ég held að framkvæmdavaldið eigi ekki að beita fólkið neinum þrýstingi að nota hana. Það hlýtur að verða að gera það upp við sig sjálft þar sem þarna er um heimildir að ræða.

En dómsmrn. hefur m.a. rætt þetta mál við borgarfógetaembættið og væntanleg er grg. frá embættinu um það hvernig það telji að hægt sé að haga þessum málum. Það hefur komið fram að aðstæður séu svo breytilegar hjá einstaklingum í þessu máli að útilokað sé að búa til eitthvert einfalt staðlað form. Málið sé því miður ekki svo einfalt að það sé hægt að leysa á þann hátt.

Þegar grg. borgarfógetaembættisins, sem mest reynir á í sambandi við þessi mál, liggur fyrir mun ráðuneytið skoða málið frekar á grundvelli hennar.