11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e. að hér sé á ferðinni gott frv. á framfarabraut, eins og hann orðaði það. Ég fagna því að ríkisstj. skuli nú hafa lagt þetta frv. hér fyrir og byggt á þeim aðalforsendum sem það er byggt á, þ.e. samstarfi ríkisins og þeirra sem þurfa að flytja út vöru. Það ber að fagna því að sú ríkisstj., sem boðar það fyrst og fremst að losna við þátttöku ríkisins í sem flestu, skuli nú hér á þinginu flytja frv. eftir frv. í þeim anda sem stangast algjörlega á við það sem þeir eru að segja í öðru orðinu, þ.e. að þeir vilji forða því að það sé ríkisþátttaka í þessu eða hinu.

Hér er lagt til að stofnað verði útflutningsráð sem skuli standa fyrir auknu samstarfi samtaka útflutningsins og stjórnvalda í þeim málum sem lúta að eflingu útflutnings. En ég vil benda á að á þessu frv. eru nokkrir gallar. Sá galli, sem mér finnst vera eftirtektarverðastur, er sá að ekki er ætlast til að þessi samvinna sé á mjög breiðum grundvelli, hún sé fyrst og fremst samstarf ráðuneytanna eða ríkisins og atvinnurekenda. Aðrir aðilar, eins og samtök launþega, eiga ekki að taka þátt í þessu samstarfi eða byggja það upp. Þeir sem eru tilnefndir í stjórn þessa fyrirtækis eru, eins og sagt er í 4. gr. frv., með leyfi forseta:

„Stjórn útflutningsráðs skipa átta menn, valdir til tveggja ára í senn. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Flugleiðir hf., Sölusamband ísl. fiskframleiðenda og Félag ísl. iðnrekenda tilnefna einn mann hver. Viðskrh. og utanrrh. tilnefna einn mann hvor og einn stjórnarmaður skal tilnefndur sameiginlega af aðilum í útflutningsráði.“

Í þessum hóp, sem á að skipa stjórn þessa fyrirtækis, er enginn frá þeim sem skapa framleiðsluna fyrst og fremst, launþegasamtökum landsins eða öðrum þeim stofnunum sem eru utan við hin stóru atvinnurekendasambönd sem þarna eru tilnefnd. Ég held að þetta frv. nái ekki tilgangi sínum nema að þetta verði byggt upp með því móti að sem breiðust samfylking sé bak við þá stefnu sem þarna er verið að túlka og er meining laganna.

Það er annar sérstakur þáttur sem ég vil einnig benda á í þessu frv. og það eru tekjur þessa ráðs. Í a-lið 6. gr. er getið um tekjur af útflutningsgjaldi skv. lögum nr. 52/1983 og í grg. með frv. er sagt, með leyfi forseta:

„Til viðbótar er síðan gert ráð fyrir að ráðið fái tekjur af útfluttum sjávarafurðum sem nemi 0,15% af gjaldstofni útflutningsgjalds af sjávarafurðum. Á árinu 1986 gæti þetta numið 35 millj. kr. á núverandi gengi.“

Það eru ekki margir dagar síðan hæstv. sjútvrh. stóð í þessum ræðustól og lýsti því yfir eða a.m.k. taldi líklegt að þetta gjald yrði fellt niður, það yrðu allir sjóðir sjávarútvegsins lagðir niður og einhverjir nýir þættir teknir upp. Starfandi er nefnd sem vinnur beinlínis að því að fella niður útflutningsgjald af sjávarafurðum. Svo er hér lagt fram frv. þar sem gert er ráð fyrir því að aðaltekjustofn þessarar stofnunar byggist á þessu gjaldi. Tekjur þessa útflutningsráðs eiga m.ö.o. að byggjast á tekjustofni sem sjútvrh. stefnir að að verði felldur niður.

Ég taldi rétt að benda sérstaklega á þessa tvo annmarka sem mér finnst vera á þessu frv. Að öðru leyti tek ég undir efni þess og tel sjálfsagt að svona ráð sé stofnað en það á að vera byggt upp með sem breiðustum bakgrunni.