11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2512 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

259. mál, Útflutningsráð Íslands

Jón Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu um útflutningsráð. Ég tel, eins og þeir hv. þm. sem hafa talað á undan mér, að hér sé um gott mál að ræða og þarft. Þetta mál er til komið af auknum áhuga fyrir útflutningsmálum, en það er grundvallarmál fyrir okkur Íslendinga að auka okkar útflutning og styrkja okkur á alþjóðavettvangi að því leyti.

Ég er sammála því, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að auðvitað kemur frumkvæðið að þessari starfsemi frá þeim fyrirtækjum sem hafa eitthvað að framleiða eða eitthvað að bjóða til útflutnings. Eigi að síður er það jafnnauðsynlegt að gott samstarf komist á milli opinberra aðila og þessara fyrirtækja og að ríkisvaldið láti útflutningsaðilum í té þá aðstoð og þau sambönd sem það hefur yfir að ráða og utanríkisþjónustan sé nýtt í þessu skyni eins og mönnum finnst við hæfi að gera.

Ég hef heyrt að íslenskir aðilar hafi sýnt erlendis framleiðsluvörur sínar og þjónustu, verið með ágæta sýningarbása hver fyrir sig en það hafi skort alla heildarsamræmingu á þessu átaki. Hefði verið full þörf á því að einhver aðili gæti samræmt átak sem atvinnu- og þjónustufyrirtæki vilja gera á þessu sviði.

Ég vil víkja aðeins að einu atriði í sambandi við þetta mál sem fram komu um raddir í okkar þingflokki þegar þetta mál var kynnt þar, þ.e. hvort ekki sé við hæfi að sjútvrn. eigi virkari aðild að útflutningsráðinu og skipi þar fulltrúa í stjórn. Ég vil beina því til fjh.- og viðskn., sem fær þetta frv. til meðferðar og ég á reyndar sæti í, að skoða þennan þátt sérstaklega.

Auðvitað ber þessi grein keim af málamiðlun og menn geta spurt sem svo: Af hverju þá ekki fleiri ráðuneyti, eins og iðnrn. og landbrn.? En það má þá geta þess að innan sjútvrn. hefur verið í gangi sérstakt markaðsátak og þar er þörf á því að samræma starf þeirra aðila sem hafa upp á eitthvað að bjóða í sambandi við útflutning á tækniþekkingu og reynslu í sjávarútvegi. Menn horfa mjög til þess að þar séum við lengra á veg komnir en í öðrum atvinnugreinum, við séum þar samkeppnishæfir á erlendum mörkuðum og við höfum þar mikla möguleika. Ég vildi aðeins benda á þetta í þessari umræðu. Ég veit reyndar að fjh.- og viðskn. tekur þetta til athugunar. Ég þekki þar til starfa og veit að þar eru þau atriði könnuð sem óskað er eftir. Ég á reyndar sæti í nefndinni sjálfur en ég vildi láta þetta koma fram.

Hér er hreyft mjög þörfu máli, máli sem hefur verið til umræðu núna um alllangan tíma í þjóðfélaginu, þ.e. að þörf væri á því að gera aukið átak í útflutningsmálum okkar Íslendinga. Ég vona að þetta frv. fái hér greiða afgreiðslu.