11.02.1986
Efri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2519 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

257. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég skal taka greiðlega undir það hjá hv. 5. landsk. þm. að það væri bæði fróðlegt, nytsamlegt og skemmtilegt að taka málefni útvarpsins til rækilegrar umfjöllunar á hinu háa Alþingi. Raunar er það svo að Alþingi lætur sig allt of litlu skipta svo þýðingarmikla þætti í þjóðlífinu eins og útvarp og sjónvarp er orðið nú til dags og heldur áfram að eflast. Það er raunar minn vilji, og ég vil taka það skýrt fram, að ég mun reyna að efla íslenska Ríkisútvarpið eftir fremstu getu. Ég er fylgismaður hins frjálsa útvarps og hef ekkert á móti því að þeir spjari sig sem geta en þarna verðum við a.m.k. að standa mjög fast í ístaðinu. Þetta á við um alla menningarstarfsemi og þetta á alveg sérstaklega við um varðveislu íslenskrar tungu.

Ég fylgdist með því hér á vordögum á síðasta ári þegar átökin stóðu um útvarpslögin nýju og ég ætla ekkert að draga í efa að ýmsu hafi verið ábótavant. Trúlega stungu menn við fótum og vildu ekki á neinar breytingar hlusta af því sem þeir álitu að þá hefði farið í verra að lögin sjálf hefðu þá stöðvast, enginn tími hefði gefist til að senda þau milli deilda, og er þetta auðvitað vandræðaleg niðurstaða.

Ég ætla nú ekki að leggja dóm á brtt. þær sem hér eru fram fluttar. 3. gr. brtt. fjallar um íslenskan texta og ég þykist hafa tekið nokkuð djúpt í árinni þess vegna með útgáfu reglugerðar þar sem þetta er skylt að texti íslenskur, á góðu íslensku máli, fylgi myndum. Og enn fremur að með beinni útsendingu er að jafnaði skylt að þýða beint eða endursegja á lýtalausu íslensku máli. En af því sem þetta er nú ekki auðgert mál og ég velti þessu töluvert fyrir mér þá varð niðurstaða mín sú að láta þessa reglugerð aðeins gilda til 1. janúar 1987, en ekki eins og til stóð og lögin raunar, til loka ársins 1988. Þetta er nýtt fyrir okkur og þess vegna er ástæðulaust að setjá reglur til lengri tíma, ef við hnjótum um eitthvað, sem er illframkvæmanlegt eða sem betur mætti fara, að laga okkur þá sem tíðast að aðstæðum.

Ég veit að þetta frv. til laga um breytingar á útvarpslögum verður sent til umsagnar og ég ætla að hinkra við og sjá til um álit manna. Ég vona nú að í þetta skipti geti menn skoðað þessi atriði af rósemi hugans þótt menn af tímaskorti leiddu þau hjá sér á liðnu ári. Mér sýnist nú um varðveislu efnis og eins það sem segir hér á öðru frv. um brottnám úr lögum um varðveislu, þá sýnist mér nú að fari betur á því sem hér er lagt til og get tekið undir þau atriði að því leyti sem fram koma í þessu frv. En ég geymi mér alla frekari útlistun á afstöðu minni þar til að umsagnir liggja fyrir um þessi mál. Ég á von á því að þær umsagnir hvíli á yfirveguðu áliti en afgreiðsla þeirra markist ekki af tímaskorti eins og henti hér við afgreiðslu laganna á liðnu vori.