12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2520 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég mun þá fram halda ræðu minni frá því síðast. Ég hafði beint spurningum til viðskrh. um ýmis ákvæði í því frv. sem hér er til umræðu um Seðlabanka Íslands og kannske þá fyrst og fremst um atriði sem ég taldi vanta. Ég spurði um kreditkort, hvort væri að vænta löggjafar í þeim efnum, hvernig hún yrði og hvenær. Um það er búið að tala lengi. Ég gerði að umtalsefni lög um peningamálastjórn og vildi gjarnan vita um hug ráðherra í þeim efnum, hvort hann hygðist beita sér fyrir sérstakri löggjöf í þeim efnum, hvort heldur sem væri viðbót við þessa löggjöf eða sérlög eins og ég hafði reyndar gert ráð fyrir. Og ég spurði sérstaklega um málefni Útvegsbanka Íslands, sbr. lög um viðskiptabanka, einkanlega með tilvísun í 45. gr. þeirra laga, þar sem talað er um skyldur ráðherra að leggja mál eins og hér um ræðir fyrir Alþingi og tillögur sínar um það efni, og spurðist fyrir um hvort ekki væri orðið tímabært að hæstv. ráðh. flytti á Alþingi þá skýrslu sem gert er ráð fyrir í þeim lögum og þær tillögur sem þar er enn fremur gert ráð fyrir.

Þá hafði ég hafið að ræða eilítið um það sem ég leyfi mér að kalla ávöxtunarfyrirtæki, en ráðherra hafði kinokað sér við að ræða það mál í umræðum hér, lét ekki í ljós neina skoðun í þeim efnum, ekki heldur á því hvort þörf væri lagasetningar varðandi þetta atriði. Eftir því vil ég sérstaklega inna ráðherra og þá í ljósi fáeinna staðreynda sem ég hlýt að minna á í þessu sambandi.

Ég hafði minnt menn á þær staðreyndir að engin lög eða reglur gilda nú um sjóði af þessu tagi og jafnframt, þrátt fyrir orð ráðherra, að hér er ekki um venjuleg verðbréfaviðskipti að ræða sem greinilega er ekki tekið tillit til í frv. til laga um verðbréfamiðlun og mun skýrast frekar af því sem ég segi hér á eftir.

Ég minnti á að hver sem er, hvaða spilaklúbbur sem er getur í rauninni stofnað til sjóðs af þessu tagi og það brýtur að sjálfsögðu ekki í bága við nein lög því að engin lög eru um þetta og það er heldur ekki gert ráð fyrir neinu varðandi svona sjóðsstofnanir í því frv. til laga um verðbréfamiðlun sem hér liggur fyrir.

Ég minnti á að upphaflegir stofnendur svona sjóðs ráða öllu varðandi hann og þeir sem kaupa ávöxtunarbréf síðar hafa engan íhlutunar- eða eftirlitsrétt með svona sjóði. Ég minnti jafnframt á að sjóðirnir eru ekki undir neinu eftirliti og þeir virðast geta auglýst hvað sem þeim sýnist eða hafa a.m.k. gert það og ráðamenn sjóðsins, hinir upphaflegu stofnendur, geta farið með sjóðina eins og þeim sýnist. Þetta sýnist mér að gefi tilefni til sérstakrar lagasetningar og það muni hrökkva skammt þó að einhver einn úr þessum hópi eigi að fá leyfi viðskrh. sem virðist vera helsta ákvæði í frv. til laga um verðbréfamiðlun.

Ég minnti á að sú ávöxtun sem þessir sjóðir auglýsa er einungis útreiknuð ávöxtun en ekki útgreidd ávöxtun og útreikningurinn er á vegum sjóðanna sjálfra og þeir einir hafa staðið að þeim útreikningi. Enginn hefur litið eftir því hvers eðlis sá útreikningur er eða hvernig hann er gerður eða hvernig hann fær staðist. Ég hefði talið að það væri lágmarkskrafa að eftirlit væri haft með slíkum útreikningi og það væru gerðar lágmarkskröfur um hvernig auglýsingar mætti birta um hluti af þessu tagi og að ær megi ekki vera misvísandi.

Ég minnti á að engin ávöxtun er útgreidd jafnóðum og eina ráðið til að fá raunverulega ávöxtun er að selja þau bréf sem menn hafa keypt og að einu kaupendurnir sem vísað er til eru sjóðirnir, en sjóðirnir sjálfir áskilja sér ýmsan rétt í þessu sambandi eða frestunarrétt á kaupum allt til ársins 2005 eða 2010.

Ég taldi að það væri athyglisvert að skoða með hvaða hætti sjóðir af þessu tagi auglýsa starfsemi sína. Ég hafði, trúi ég, bent mönnum á auglýsingu ekki alllitla t.d. frá því í nóvember um svokölluð kjarabréf þar sem stendur að sá sjóður sem að þessu stendur, sem er Verðbréfasjóðurinn, sé stórmerk nýjung og á hálfu ári hafi hann skilað eigendum sínum 26,8% ársávöxtun umfram verðtryggingu. Ég bendi á að sjóðirnir hafa ekki skilað eigendum sínum neinu í rauninni. Peningarnir eru þá inni í sjóðnum ef þeir hafa ávaxtast með þessum hætti. Eina ráðið til þess að fá ávöxtunina út er að selja bréfin. Menn hafa ekki peningana í hendi öðruvísi en að bréfin fáist keypt og þá væntanlega á þessu gengi.

26,8% stendur hér. Það er ekkert smáræði. En hvernig eru þessi 26,8% fundin? hljóta menn að spyrja. Í smáu letri í einu horni auglýsingarinnar er tekið fram að þessi ávöxtun sé miðuð við 17. maí til 17. nóv. 1985, hvort tveggja reiknað á ársgrundvelli. Skyldi það vera einhver tilviljun að sjóðirnir velja einmitt þessa tvo daga, sem er reyndar hálft ár en ekki heilt, til þess að tilgreina í þessum efnum? Getur verið að ársávöxtunin sé einhver önnur og lægri á öðrum tímum?

Það slær mann líka að í auglýsingu frá hinum aðilanum, Kaupþingi hf., eru sömu mánuðir tilgreindir, frá maí til nóvember s.l., þó að auglýsingin hafi komið núna í janúarmánuði. Þeir velja sér sem sagt tilteknar dagsetningar þar sem útreikningsaðferðir þeirra hafa gefið þeim greinilega tiltölulega háar tölur.

Mér er reyndar spurn og mér leikur forvitni á að vita hvort í þessum auglýsingum sé tekið tillit til þeirrar söluþóknunar sem þessir sjóðir áskilja sér sjálfir fyrir að kaupa nú bréfin sem þeir hafa vísað á sjálfa sig um það að þeir mundu kaupa. Verðbréfasjóðurinn áskilur sér 3% í söluþóknun fyrir að selja sér bréfið. Hefur það verið dregið frá þannig að það sem sala hefði skilað eigendum sínum sé 26,8%, m.ö.o. að hin útreiknaða ávöxtun hafi þá verið 29,8% samkvæmt kokkabókum þeirra í Verðbréfasjóðnum? Hefur þessu verið haldið til haga? hlýtur maður að spyrja. Þeir klípa ekki utan af því varðandi kjarabréfin sín því að í auglýsingunni stendur: „Þú getur innleyst kjarabréfin hjá Verðbréfasjóðnum með nokkurra daga fyrirvara.“ Hver er þessi nokkurra daga fyrirvari? Ég minnti á í fyrri ræðu minni að sjóðurinn áskilur sér 90 daga í fyrsta lagi til að verða við ósk um að innleysa bréfið, um það að kaupa bréfið. Innlausn skal fara fram eigi síðar en 90 dögum frá þeim degi að innlausnarkrafa berst Verðbréfasjóðnum, reyndar á sérstöku eyðublaði, eða næsta virkan dag þar á eftir, en jafnframt kemur í næstu setningu að stjórn Verðbréfasjóðsins er heimilt að fresta innlausn telji hún ástæðu til, sbr. þó ákvæði um endanlegan gjalddaga sem upplýst er að sé 10. maí árið 2005. Þetta kalla þessir menn og leyfa sér að auglýsa að bréf sé innleyst með nokkurra daga fyrirvara þegar áskilinn er í fyrsta lagi 90 daga frestur og í annan stað mér liggur við að segja óendanlegur frestur, frestur allt fram til ársins 2005. Er þetta ekki misvísandi auglýsing? Getur ekki verið að það séu ýmsir sem hafa átt viðskipti við sjóðinn sem hafa tekið auglýsinguna trúanlega og hafa ekki lesið hið smáa letrið, letrið á bréfinu sjálfu og það sem þar getur að lesa?

Hinn sjóðurinn, sá sem er á vegum Kaupþings, telur að hann gefi sér ekki eins mikinn frest og þeir hjá Verðbréfasjóðnum. Hjá Hávöxtunarfélaginu á vegum Kaupþings heita þetta einingaskuldabréf. Þar stendur: „Skuldina samkvæmt einingaskuldabréfi þessu skal endurgreiða hinn 1. febrúar“, ekki árið 2005 heldur „árið 2010“. En síðan kemur: „Hávöxtunarfélaginu er þó fram að þeim tíma skylt að innleysa skuldabréf að jafnvirði 1/50 af útistandandi eignum ávöxtunarsjóðsins í hverjum mánuði innan mánaðar frá framvísun.“ 90 dagarnir eru hér orðnir að mánuði. Víst er það skárra. Og víst lítur það vel út að 1/50 skuli innleystur á hverjum mánuði. En menn skulu ekki halda að það þýði að á fimmtíu mánuðum hafi öll bréfin verið innleyst. Það gerist vitaskuld ekki því að orðalagið er: 1/50 af því sem eftir er. Ég gerði það mér til dundurs að líta aðeins á, ef til þess kæmi að eigendur einingaskuldabréfa vildu hagnýta sér þennan rétt til úrlausnar, hvað það væri líklegt, ef þeir færu til í þessum efnum og ekkert sérstakt fjárstreymi væri inn í þennan sjóð, að þeir þyrftu að bíða lengi. Mér reiknast svo til að lengur en eitt ár mundu 80% þurfa að bíða. Mér reiknast svo til að lengur en tvö ár mundu 60% þurfa að bíða, þ.e. á fyrsta ári yrðu 20% bréfanna innleyst, heildareignarinnar, á fyrstu tveimur árum væru það nálægt 40%, reyndar tæp, á þremur árum væri búið að innleysa helminginn og á fjórum árum væri búið að innleysa rúmlega 60% þannig að upp undir 40% þeirra sem vildu fá innlausn samkvæmt þessari göfugu reglu mundu þurfa að bíða fjögur ár eða lengur eftir því að röðin kæmi að þeim. Þannig virka formúlur af þessu tagi, nefnilega þannig að sjóðurinn tæmist alls ekki á þessum 50 mánuðum, menn mundu ekki fá fé sitt til baka á þessum 50 mánuðum, það væru um 60% sem hefðu verið útgreidd, 40% þyrftu að bíða lengur, og vitaskuld þyrftu einhverjir að bíða allar götur til ársins 2010. Þannig virkar þessi regla.

Það er fleira fróðlegt í auglýsingum um þessa sjóði. Hér stendur í auglýsingu um kjarabréfin: „Þú færð hámarksávöxtun en tekur lágmarksáhættu.“ Lágmarksáhættu? Er það nú víst, þegar svo er í pottinn búið, að menn séu að taka lágmarksáhættu? Það eru auglýstar útreiknaðar verðhækkanir, útreiknuð ávöxtun aftur í tímann en menn vita ekkert hver hún verður í framtíðinni og menn vita ekkert um það, ef þeir vilja fá þetta innleyst, hvað þeir þurfa þá að bíða lengi.

Lágmarksáhættu? Ég er hræddur um að ýmis önnur bréf sem eru til sölu á markaðnum, að ég ekki spyrji um það að ávaxta fé sitt í bönkum eða sparisjóðum, hafi í för með sér mun minni áhættu en þetta. Þetta er vitaskuld misvísandi. Þeir sem fara inn á þessa braut eru að taka þátt í áhættubúskap og þeim á vitaskuld að gera ljóst að þeir séu einmitt að taka áhættu en ekki að firra sig áhættu, eins og auglýsingin gefur til kynna þar sem hér er sagt að menn taki lágmarksáhættu.

Það þriðja eða fjórða sem stingur í augun í auglýsingu af þessu tagi er það að þess er getið að menn geti keypt kjarabréf í næsta pósthúsi. Póstþjónusta landsins hefur sem sagt tekið að sér sölumennsku á þessum bréfum. Finnst mönnum eðlilegt að pósthús landsins standi fyrir sölumennsku sem auglýst er með jafnmisvísandi hætti og hér er gert, þar sem mönnum er talin trú um að þeir séu ekki að taka áhættu, þar sem gylltar eru fyrir mönnum vonir um 23-27% ávöxtun og þar sem því er haldið fram að þessi bréf megi innleysa með fárra daga fyrirvara þegar allt annað er í rauninni það sem gert er og það sem heimilt er samkvæmt þeim bréfum sem út eru gefin?

Finnst mönnum ekki ástæða til þess að löggjöf sé a.m.k. um það með hvaða hætti mönnum leyfist að kynna svona starfsemi? Það heyrir svo til þessari sögu að ríkissjóður er aðili, eins konar langafi, að Verðbréfasjóðnum vegna þess að ríkissjóður á Framkvæmdasjóð og Framkvæmdasjóður á í Fjárfestingarfélaginu og Fjárfestingarfélagið á í Verðbréfasjóðnum. Ríkissjóður er þannig aðili að þessu, ríkissjóður og ríkiskerfið með tvennum hætti. Annars vegar er ástunduð dreifing í gegnum pósthús landsins og hins vegar er hann eignaraðili, eins konar bakábyrgðaraðili að auglýsingum af þessu tagi.

Ég vil líka minna á að það eru gjarnan verðbréfasalar sem standa að ávöxtunarsjóðum af þessu tagi. Með því móti eru þeir að skapa markað fyrir sjálfa sig. Þegar Pétur Blöndal mætti í útvarpið skömmu eftir að ég hafði haldið ræðu mína í síðustu viku um þetta efni taldi hann það sjóðunum til hróss að þeir hefðu lækkað vextina á markaðnum vegna þess að nú keyptu þessir sjóðir upp svo mikið af bréfum. Það hlýtur að vera einkar hentugt að vera verðbréfasali og starfrækja sjóð af þessu tagi og skapa sér tvöfalda söluþóknun, annars vegar gegnum söluna á einingabréfunum og hins vegar gegnum söluna á verðbréfunum sem ávöxtunarsjóðirnir kaupa. Ég tel að tengsl af þessu tagi eigi ekki að eiga sér stað ef þeir sjóðir sem hér um ræðir, ávöxtunarsjóðir af þessu tagi, eru fyrir hendi. Það er eitt af því sem kveða ætti á um í löggjöf.

Annars var það athyglisvert um það viðtal sem birtist við Pétur Blöndal að hann hafði í rauninni enga gagnrýni uppi á þann málatilbúnað sem ég hafði hér í s.l. viku. Hann hrakti ekki orð af því sem þar kom fram. Hann tók fram að margt hefði verið réttmætt hjá mér og hann tók fram að það væri þörf fyrir löggjöf. Þess vegna spyr ég og hlýt að spyrja hæstv. viðskrh.: Er virkilega ekki að dómi viðskrh. þörf fyrir sérstaka löggjöf í þessum efnum og þá langt umfram það sem gert er ráð fyrir í frv. til laga um verðbréfamiðlun vegna þess að hér er um allt öðruvísi starfsemi að ræða en fjallað er um í því frv.? Ég vænti þess að einhverjir aðstoðarmenn hans geti komið þessum boðum til hans. (Forseti: Hæstv. ráðh. mun vera í Ed. að mæla fyrir máli einmitt nú.) Og er hann hér aðstoðarlaus eða er forsrh. honum til halds og trausts? Ég mun engu að síður halda áfram ræðu minni, herra forseti, nema fram komi sérstök ósk um það frá deildinni að ég geri hlé á máli mínu. Ég áskil mér hins vegar rétt til þess að fá að taka til máls oftar einungis til þess að ítreka fsp. mínar.

Hins vegar sagði Pétur Blöndal, forsvarsmaður annars sjóðsins, að ekki væri rétt að tala um þessa starfsemi í neikvæðum tón og mér skildist að hann hefði ætlast til þess af mér að ég teldi fram ýmsa kosti í sambandi við sjóði af þessu tagi. Ég tók eftir því að þessi forsvarsmaður sjóðanna sagði að þeir væru að hjálpa venjulegu fólki að fá góða ávöxtum, sérstaklega gömlu fólki. Mér er spurn: Hefur þessu gamla fólki verið gerð góð grein fyrir því að ávöxtunin er óviss, að veruleg áhætta er tekin, að e.t.v. getur það þurft að bíða fram yfir dauðdaga sinn til að fá innlausn á þessum bréfum, nefnilega til ársins 2005 ef það vill skipta við Verðbréfasjóðinn eða jafnvel til ársins 2010 ef það skiptir við sjóð Péturs H. Blöndals? Hefur þessu gamla fólki verið gerð grein fyrir því? Ekki hef ég séð neinar auglýsingar, ekki heldur frá þeim sjóði sem er á vegum Kaupþings, þar sem mönnum væri sérstaklega bent á hvers konar áhættu væri verið að taka með kaupum á svona bréfum né heldur að innlausn gæti dregist nokkuð lengi eða til ársins 2010.

Pétur Blöndal taldi líka að með þessu væri verið að hjálpa fyrirtækjunum í landinu, það væri verið að skapa atvinnu, þetta færi inn í atvinnureksturinn. Já, það má vel vera. Margir peningar leita í atvinnureksturinn. En fyrr má nú vera atvinnurekstur sem stendur undir 23-27% vöxtum. Hvaða atvinnurekstur er það sem stendur undir slíkum vöxtum? Og ef allir þeir sem eru að útvega peninga með þessum hætti eru fyrst og fremst að skapa atvinnu í landinu, hvers vegna voru menn þá að rífast hér og tætast og stefna mönnum fyrir okurlánastarfsemi? Fóru ekki þeir peningar líka til þess að skapa einhvers konar atvinnu einhvers staðar í landinu? Ég held að þessi rök fái ekki staðist.

Ég held reyndar að ef þessi ávöxtun er virkilega fyrir hendi, ef það er virkilega svo að einhverjir greiða í kringum 30%, ef tekið er tillit til söluþóknunar samkvæmt því sem ég hef upplýst hér, þá held ég að þeir hljóti að vera í algerri neyð. Ég held að þetta séu neyðarlán einhverra sem eru að þrotum komnir. Menn geta velt því fyrir sér hvort ekki sé eitthvað bogið við peningakerfið í landinu þegar svo er komið.

En það eru margar spurningar sem hljóta að vakna í sambandi við þessa sjóði. Ég rakti áðan að menn gætu þurft að bíða æðilengi eftir því að fá innlausn. Segjum sem svo að margir vilji selja ávöxtunarbréf af þessu tagi. Hver er það þá sem ákveður hvaða bréf eru keypt og hvaða bréf eru ekki keypt, í hvaða röð bréfin eru keypt? Ja, það mundu væntanlega vera þessir upphaflegu stofnendur sjóðsins. Aðrir hafa þar engan íhlutunarrétt. Hafa menn einhverja tryggingu fyrir því að það sé gengið fram með eðlilegum og sanngjörnum hætti? A.m.k. er ekki með því neitt eftirlit.

Hér kemur svo annað atriði þar sem eftirlit þarf vitaskuld að vera fyrir hendi, annað atriði sem að mínum dómi knýr á um kröfuna um löggjöf í þessum efnum. Þegar búið er að gefa út dálítið af bréfum af þessu tagi, skyldi það þá ekki geta komið fyrir að eitthvert bréfið glataðist? Hvað gerist þá? Ekki hef ég hugmynd um það. Það er ekkert um það á þessum bréfum frá sjóðunum hvernig með skuli fara ef bréf glatast. Væntanlega eru eigandanum þá peningarnir glataðir og þessi spilaklúbbur, ef svo vildi verkast, sem hefði stofnað sjóð af þessu tagi, sæti uppi með þá eign. Það er svolítið öðruvísi en ef sparisjóðsbók glatast. Þá eiga menn nokkurn rétt. Þá geta menn fengið að halda eign sinni með ákveðnum hætti, auglýsingu í Lögbirtingablaðinu o.s.frv.

Eru þeir sem kaupa svona bréf þá ekki að taka þarna líka einhverja áhættu? Væri ekki ástæða til að kíkja á hvort það sé eðlilegt ef bréf glatast að það sé þá bara glatað og sú eign sem sem í því felst lendi í höndum sjóðsstjórnar?

Skylt þessu er vitaskuld að jafnvel þótt bréfið hafi ekki glatast er ekki víst að það komi fram fyrir hinn tiltekna dag, 10. maí árið 2005, eða einhverja aðra dagsetningu árið 2010. Sitja þá sjóðsstjórnarmenn uppi sem eigendur þess fjár sem stóð á bak við þau bréf sem ekki voru innleyst? Þetta er vitaskuld líka atriði sem er ástæða til að taka tillit til. Allt hnígur þetta að því að þörf sé á eftirliti. Það er þörf á rammalöggjöf. Það er þörf á því að sjóðir af þessu tagi, svo framarlega sem þeir eiga að vera til, uppfylli tiltekin skilyrði og að tekið sé á atriðum eins og þeim sem ég hef hér rakið.

Ég gat þess áðan að sjóðirnir reiknuðu sér einhverja ávöxtun sem enginn kannske veit og hvergi er upplýst utan sjóðanna hvernig sé fengin. Þannig ákveða þeir hver þeir telja að ávöxtunin hafi verið. Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvernig slíkur útreikningur gæti átt sér stað þegar markaður er fallandi eða markaður fellur. Við skulum segja sem svo að sjóður eigi verðbréf sem hann hefur keypt áður með verulegum afföllum þannig að heildarávöxtun reiknaðist einhvers staðar í kringum 20% þegar bréfin voru keypt. Svo fellur markaðurinn, þ.e. ávöxtunarkrafan lækkar. Það er þetta sem Pétur H. Blöndal var að tala um að hefði verið að gerast, afföllin minnka.

Eigum við að gera ráð fyrir því að ávöxtunarkrafan á markaðnum lækki niður í t.d. 5% raunvexti? Hvernig hugsar og reiknar þá svona sjóður stöðu sína? Hann gæti t.d. sagt sem svo: Ég er með þessi bréf sem ég keypti á þessum feikna afföllum. Nú get ég selt þau nokkrum mánuðum síðar, einum, tveimur, þremur mánuðum síðar, og grætt mjög mikið á mjög skömmum tíma. Ef það væri svo umreiknað til ársávöxtunar vegna verðlækkunar sem hefði orðið á markaðnum á mjög skömmum tíma, einum mánuði, tveimur mánuðum, má fá reiknaða ávöxtun vegna þessa reiknaða gróða upp úr öllu valdi, liggur mér við að segja, herra forseti. Það skyldi þó ekki vera að þessi fína ávöxtun, sem verið er að auglýsa hér, sé fengin með þessum hætti? Vegna þess að markaðurinn féll, vegna þess að vextir voru fallandi reiknuðu menn sér að þeir gætu selt bréfin með miklum hagnaði yfir skamman tíma og svo þegar það er reiknað til heils árs koma út háar prósentutölur vegna fallandi markaðar.

Ég get þessa vegna þess að það er hugsanlegt að þannig hafi menn reiknað. Og hvað er þá meira misvísandi en að auglýsa vexti upp úr öllu valdi vegna þess að markaðurinn hafi fallið? Um þetta atriði er líka vitaskuld nauðsyn að setja löggjöf, um það með hvaða hætti mönnum leyfist að útreikna sér þessa vexti. Það er mörg gryfjan, en þessar háu tölur, sem menn hafa fengið, gætu hugsanlega verið fengnar með þessum hætti og það segi ég í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram hjá Pétri Blöndal í útvarpsviðtali um að einn árangurinn af starfi sjóðanna hefði verið lækkandi vextir.

Ég þykist, herra forseti, og ég mundi segja það við hæstv. ráðh. ef hann hefði verið hér, hafa fært allveruleg rök að því að það sé mikil þörf á löggjöf í þessum efnum og eins og ég hef áður getið um hef ég talið um nokkra hríð að sú löggjöf ætti heima í löggjöfinni um Seðlabanka Íslands eða kannske réttara sagt um bankaeftirlit. Og hvers vegna það? Vegna þess að eins og starfsemi þessara sjóða er rekin eru þeir að taka við fé frá almenningi til ávöxtunar. Þannig auglýsa þeir sig nákvæmlega með sama hætti og bankarnir. Þetta eru engin venjuleg verðbréfaviðskipti. Þeir eru að leita til almennings um það að hann leggi inn fé til þeirra til ávöxtunar. Það er þá orðið næstum því eins og skilgreiningin á bönkunum. Bankar eru í viðskiptalagafrv. skilgreindir sem aðilar sem auglýsa að þeir taki við fé til ávöxtunar, gera það heyrum kunnugt að þeir taki við fé til ávöxtunar frá almenningi.

Herra forseti. Ég tel að þær upplýsingar, sem ég hef hér gefið, gefi fyllstu ástæðu til að þessi mál verði skoðuð sérstaklega. Ég ætla að vona að sú nefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, skoði þetta mál vandlega og láti það ekki dragast og setji sig í stellingar til að koma inn í það frv. sem hér er til umræðu ákvæðum sem varða starfsemi sjóða sem þessara og eftirlit með þeim.

Ég skal nefna fáein atriði sem ég tel að eigi heima í löggjöf um sjóðarekstur af þessu tagi. Ég tel að þar eigi heima ákvæði um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að stofnsetja slíkan sjóð. Ég tel að það þurfi ákvæði um opinbera innsýn í sjóðinn á vegum Seðlabanka Íslands, þar á meðal um hvernig ávöxtun er reiknuð, sbr. þau dæmi sem ég hef ég rakið, það geti fengist staðfest af opinberum aðila með hvaða hætti ávöxtunin hefur verið reiknuð. Ég tel að það þurfi ákvæði um hvernig með skuli fara þegar bréf týnist eða þegar bréf kemur ekki fram á hinum endanlega gjalddaga. Ég tel að það þurfi ákvæði um hvernig stjórnun slíks sjóðs skuli háttað og með hvaða hætti skylt sé að upplýsa þá sem eiga einingabréf eða ávöxtunarbréf af þessu tagi. Ég tel að það verði að vera ákvæði um að svona sjóðir skuli vera óháðir verðbréfasölum sem standa í almennum verðbréfaviðskiptum þannig að þeir séu ekki að skipta við sjálfa sig. Ég tel að það þurfi að setja sérstök ákvæði um skyldur varðandi innlausn. Ég hef hér rakið að það eru sín ákvæðin hjá hvorum þessara tveggja sjóða, annars vegar galopin þannig að það má geyma allt til ársins 2005, hins vegar að 1/50 af því sem innistandandi er skuli innleyst í hverjum mánuði sem þýðir greinilega að sumir, um það bil 37-40%, mega búast við að bíða fjögur ár eða lengur eftir innlausn ef svo verkast vill.

Ég tel að það þurfi ákvæði um hve rekstrarkostnaður við svona sjóð megi vera mikill. Það er eitt af þeim atriðum sem fram koma í þessum bréfum að annar sjóðurinn áskilur sér fyrir umsýslu á sjóðnum, þ.e. ávöxtunarsjóðurinn hjá Hávöxtunarfélaginu, allt að 2% þóknun af andvirði eigna sjóðsins í lok hvers árs. Ef það eru komnar 100 millj. í þennan sjóð eru það þó nokkrir peningar. Ég spyr nú ekki að ef það er uppreiknað samkvæmt ávöxtunarformúlu. Ég tel að það þurfi ákvæði um hvernig kostnaður við svona lagað megi vera og hver hann megi vera hið mesta og eftirlit með því að ekki sé bruðlað í þeim efnum.

Sumir vilja sjálfsagt ekki að svona sjóðir séu til. En ég held að það sé betra að gera ráð fyrir því að til svona sjóða geti verið stofnað og setja ákvæði um það í lög hver skilyrði skuli þá uppfylla og síðast en ekki síst mjög ströng ákvæði um hvernig almenningur skuli upplýstur, með hvaða hætti skuti leyft að auglýsa og með hvaða hætti ekki. Það ítreka ég enn og aftur, herra forseti, vegna þess að ég hef orðið þess áþreifanlega var að fólk yfir höfuð tekið hafði ekki hugmynd um hvers konar sjóðir þetta væru eða með hvers konar skilmálum þessi bréf væru og hefur leitað til mín umvörpum eftir að ég gerði grein fyrir þessu í síðustu viku, bæði með fyrirspurnir og eins með þakklæti fyrir að hafa upplýst hvernig þetta væri í raun og sannleika.