12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2534 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd vegna ræðu hæstv. viðskrh. varðandi greiðslukort.

Öll þessi umræða var um vandræði sem skapast þegar peningum þjóðarinnar er beint inn á nýjar brautir og er auðvitað sjálfskaparvíti vegna þess að hér er ekki um neina stjórnun að ræða. Greiðslukortafaraldurinn stofnaðist. Um hann voru ekki sett nein lög og þau hafa ekki verið sett enn. Það er stundum of seint að setja lög um orðinn hlut. Og hafi hæstv. viðskrh. einhverjar hugmyndir um að hægt sé að takmarka að einhverju leyti notkun greiðslukorta nú er ég ekki viss um að það sé rétt. Sannleikurinn er sá að stór hluti þjóðarinnar lifir nú á greiðslukortum. Og ég get ekki séð fyrir mér að nú væru þrengdar mjög reglur um notkun þeirra. Þá held ég að það kæmi tímabil í lífi hverrar fjölskyldu þar sem yrði smátt um brýnustu nauðsynjar. Sannleikurinn er sá að hlutir gerast aldrei. Þeir eru gerðir. Þegar svo var komið að ljóst var að kjör fólks færu hríðversnandi varð að finna nýja leið til að viðhalda þenslunni og bjarga kaupmönnum. Það varð að finna fólki einhverja nýja leið til að geta eytt peningum. Greiðslukortin gegna auðvitað því hlutverki nú.

Sama er að segja um verðbréfamarkaðinn. Hann er látinn vaxa úr öllu hófi án þess að stjórnvöld geri minnstu tilraun til að stýra honum. Þegar allt er í óefni komið er farið að tala um að setja löggjöf, og ætti nú hæstv. utanrrh. og þáverandi hæstv. viðskrh. að minnast orðaskipta okkar á hinu háa Alþingi varðandi þessi mál. Það þarf nefnilega stundum að sjá fyrir hvernig hlutir æxlast en ekki að fara að reyna að stjórna því sem er löngu orðin staðreynd í þjóðfélaginu. Ef hæstv. viðskrh. þarf ekki að nota greiðslukort, því að ráðherrar eru sagðir hafa slík ógnarlaun, get ég upplýst hann um að menn eiga að greiða greiðslukortaskuld sína 3. hvers mánaðar. Greiði þeir hana 4. dag mánaðarins fá þeir sömu dráttarvexti og ef þeir greiddu hana 28. eða 29. dag mánaðarins.

Þannig eru bankarnir farnir að gefa eftir. Fólk er farið að semja um að greiða með afborgunum greiðslukortaskuld sína þannig að þetta kerfi er að taka sífelldum breytingum. Ég get vel skilið fátækt fólk sem greiðir þá alveg eins skuldina sína síðasta dag mánaðarins eins og 4. dag mánaðarins úr því að dráttarvextirnir eru hvort sem er hinir sömu. En þetta bjargar auðvitað ekki vítahring fjölskyldnanna í landinu sem ráða engan veginn við að sjá sér farborða. Það er þess vegna engin goðgá að leyfa sér að halda því fram að fólk sem hefur jafnvel á milli 60 og 70 þús. kr. í mánaðarlaun, eins og hv. alþm., geri ekki meira en að hanga í því sem talið er nauðsynlegt af Hagstofu Íslands til að lifa af. Allt fólkið sem hefur minni tekjur er í þessum vítahring.

Sú var tíðin að einn barnakennari gat unnið fyrir fjölskyldu. Síðan flykktust konur í stéttina og það var auðvitað eins og við manninn mælt að launin urðu helmingi lægri. Nú nægir kennara ekki að vera giftur einum kennara. Hann þyrfti helst að vera giftur tveimur til þess að fjölskyldan geti haft þær tekjur sem taldar eru nauðsynlegar. (Samgrh.: Það er eins gott að þær eru fleiri hérna.) Hæstv. viðskrh. Þetta verður að segjast vegna þess að þetta er staðreynd. Og það er auðvitað engin afkoma nokkurrar þjóðar að lifa við það vinnuálag og þá þrælkun sem viðgengst í þessu þjóðfélagi.

Ég skal ekki lengja mál mitt, herra forseti, en með nokkurri skarpskyggni hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það er tvennt sem ríkisstjórn Íslands er að gera. Stærsti flokkur þjóðarinnar er að taka eignir af öllum þorra landsmanna sem þeir hafa unnið fyrir á undanförnum áratugum. Hinn stjórnarflokkurinn, Framsfl., vinnur að því öllu afli að leggja landbúnaðinn á Íslandi í gröfina. Ég held þess vegna, hæstv. ráðh., að stjórnarflokkarnir ættu að halda þing og vita hvort ekki hefur orðið veruleg stefnubreyting í málum þessara stjórnmálaflokka.

Þetta skulu verða mín lokaorð. En ég held að einhver verði að segja sannleikann um kjör fólksins í landinu. Hæstv. ráðh. þrengir ekkert reglur um notkun greiðslukorta héðan af. Hann er búinn að setja þjóðina - og samráðherrar hans og stuðningsflokkar - í þá aðstöðu að greiðslukortin eru núna neyðarúrræði fjölskyldnanna í landinu. Ef það neyðarúrræði kemst í algera blindgötu sannið þið til að það gerist eitthvað annað til að bjarga fólki í bili. En best væri að áður en slíkir hlutir gerast yrðu þeir séðir fyrir og um þá sett lög. Það er verkefni hins háa Alþingis.

Umr. (atkvgr.) frestað.