12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

245. mál, viðskiptabankar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 474 um breytingu á lögum um viðskiptabanka. Þar sem ég flyt einnig frv. til laga um breytingu á lögum um sparisjóði, sem fram kemur á þskj. 475, sem að meginefni til er sams konar og frv. um viðskiptabanka á þskj. 474, vil ég, með leyfi forseta, til að spara tíma deildarinnar fá að mæla fyrir báðum þessum frv. nú, enda rökstuðningurinn fyrir flutningi beggja þessara frv. nánast sá hinn sami.

Sú meginbreyting sem lögð er til í báðum þessum frv., þ.e. um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, er sú að þak verði sett á lánveitingar til viðskiptavina lánastofnana, þ.e. að heildarskuldbindingar eins viðskiptaaðila við viðskiptabanka eða sparisjóð megi aldrei nema meira en 35% af bókfærðu eigin fé innlánsstofnunar. Sama gildi um heildarskuldbindingar fleiri en eins viðskiptaaðila sem eru svo fjárhagslega tengdir að með hliðsjón af útlánaáhættu verði að líta á skuldbindingar þeirra gagnvart viðskiptabanka eða sparisjóði í einu lagi. Jafnframt er kveðið á um að í sérstökum tilfellum, ef fyrir liggur að því er viðskiptabankana varðar einróma samþykki bankastjórnar og samþykki meiri hluta bankaráðs og að því er sparisjóði varðar einróma samþykki sparisjóðsstjórnar og sparisjóðsstjóra, megi heildarskuldbindingar viðskiptaaðila nema hæst 50% af eigin fé bankans eða sparisjóðsins.

Ég hygg, herra forseti, að rökstuðningur fyrir þessari breytingu sé nokkuð augljós og þurfi vart að fara um hann mörgum orðum. Fram hefur komið, bæði að því er varðar viðskipti Hafskips og Útvegsbanka Íslands og einnig með vísan til svars viðskrh. við fsp. minni um lánafyrirgreiðslu fimm stærstu viðskiptaaðila ríkisviðskiptabankanna, að a.m.k. ríkisviðskiptabankarnir hafa farið langt út fyrir eðlileg mörk í lánveitingum til einstakra aðila. Í því felst veruleg áhætta sem stefnt getur afkomu banka í stórfellda hættu og það svo að veruleg hætta er á að þegar bankar eiga svo mikið undir einum viðskiptaaðila komið geti það riðið bankanum að fullu. Við höfum dæmið á borðinu að því er varðar viðskipti Hafskips og Útvegsbankans þar sem mikil fyrirgreiðsla bankans til þessa fyrirtækis leiddi til taps bankans svo hundruðum milljóna skipti.

Af svörum ráðherra við áður greindri fsp. minni má ljóst vera að lánafyrirgreiðsla ríkisbankanna til einstakra viðskiptaaðila hefur verið með þeim hætti að það fjármagnshrun sem Útvegsbankinn hefur staðið frammi fyrir gæti hvenær sem er endurtekið sig. Í svari ráðherrans kom fram að lánafyrirgreiðsla til stærsta lántakanda hjá hverjum ríkisviðskiptabanka var frá tæplega 57% af eigin fé upp í 145% af eigin fé viðkomandi banka og að skuldir fimm stærstu lántakenda ríkisviðskiptabankanna námu frá tæplega tvöföldu upp í fjórfalt eigið fé ríkisviðskiptabanka. Öllum má því ljóst vera að lánveitingar ríkisviðskiptabankanna eru úr öllu hófi og geta fyrirvaralaust teflt rekstri og hag bankanna í stórfellda hættu. Ég tel því brýnt að þegar í stað verði sett ákvæði í lög um viðskiptabanka og sparisjóði sem takmarki verulega lánafyrirgreiðslu bankanna til einstakra viðskiptaaðila þannig að tryggt verði að bankarnir eigi ekki allt undir því komið að einn og sami lántakandi standi við skuldbindingar sínar.

Margar þjóðir hafa talið brýnt að binda slík ákvæði um takmörkun lánveitinga í lög. Í Bretlandi og Bandaríkjunum er miðað við 10% af eigin fé bankanna, í Svíþjóð 15%, í Danmörku 35% og í Noregi og Vestur-Þýskalandi 50%. Hér á landi hafa slík ákvæði verið til staðar í löggjöf um sparisjóði, en þau voru sett árið 1941 en felld úr gildi á s.l. ári. Ég vil, með leyfi forseta, rifja upp þau rök sem að baki lágu þeirri lagasetningu á árinu 1941. Í grg. með frv. sem sett var um þetta efni segir m.a. svo, með leyfi forseta:

„Í frv. til l. um eftirlit með bönkum og sparisjóðum, er bankanefndin hefur samið, leggur hún til að ákveðið verði hámark þess sem lánastofnanir mega lána einstökum viðskiptamönnum og fleirum sem eru fjárhagslega tengdir. Í samræmi við það eru ákvæði 16. gr. frv. til l. um sparisjóði. Nefndin leggur mikla áherslu á að slík ákvæði verði lögfest hér. Er hvort tveggja að öll reynsla hér á landi mælir með að þess sé full þörf og að aðrar þjóðir hafa talið ástæðu til að ákveða svipað í sínum banka- og sparisjóðslögum. Einnig hefur nefndin orð bæði danskra og sænskra bankafræðinga fyrir því að mjög sé nauðsynlegt að fylgja því vel eftir að lánastofnanir bindi ekki fé sitt um of hjá einum eða fáum viðskiptamönnum. Telja þeir að flest ef ekki öll bankahrun á Norðurlöndum hafi stafað af því að ekki hefur verið gætt nægilegrar varfærni í því efni.

Það er líka augljóst að ekki er heppilegt fyrir lánastofnun að binda fé sitt svo hjá einum eða fáum mönnum að hrun þeirra geti leitt af sér hrun lánastofnunar. Er mjög hætt við að þá verði freistast til að halda lánveitingum áfram lengur en nokkurt vit er í til þess að fresta hættulegu uppgjöri og að jafnvel geti farið svo að það sé fremur lánþegi sem hafi lánastofnunina í hendi sér en hún hann.“

Þessi rök, herra forseti, eru auðvitað í fullu gildi nú ekki síður en fyrir 45 árum og árétta tvímælalaust nauðsyn þess að samstaða náist hér á Alþingi um að lögbinda slík ákvæði. Það hefur heyrst að ef sett væru slík ákvæði hér á landi, sem takmörkuðu lánveitingar til eins viðskiptaaðila, hefðu slík ákvæði þá hættu í för með sér að rekstri stærstu fyrirtækjanna væru settar svo þröngar skorður að hætta væri á að um samdrátt yrði að ræða hjá þeim, minnkandi umsvif og jafnvel atvinnuleysi. Vissulega eru þetta góð og gild rök út af fyrir sig, en þau breyta því ekki að það er með engu móti forsvaranlegt að bankarnir taki þá áhættu sem felst í því að lána einum og sama viðskiptaaðila svo hátt hlutfall af eigin fé bankans sem raun ber vitni.

Hitt er svo aftur á móti ljóst að svar viðskrh. við fsp. minni um lánveitingar til stærstu viðskiptaaðila ríkisbankanna staðfestir að endurskipuleggja þarf bankakerfið og sámeina og fækka innlánsstofnunum þannig að þær myndi stærri og öflugri heildir sem hafi þá burði og bolmagn til að standa undir lánveitingum sem stærstu fyrirtækin hér á landi þurfa á að halda án þess að tefla í tvísýnu afkomu bankanna.

Ég tel, herra forseti, að með engu móti sé hægt að réttlæta svo miklar lánveitingar eins og raunin hefur orðið á þannig að bankar eigi allt undir því komið að einn og sami viðskiptaaðili standi undir sínum skuldbindingum, þegar allt eigið fé bankans og meira til hefur verið lánað til eins og sama viðskiptaaðila. Það gengur auðvitað ekki að réttlæta það með þeim rökum að stærstu fyrirtækin þurfi á svo miklu lánsfé að halda til að geta haldið rekstri sínum gangandi eða umsvif fyrirtækisins krefjist svo mikils lánsfjár. Það er of mikið í húfi fyrir bankastofnanir okkar til að slík rök séu réttlætanleg. Við eigum engu að síður að draga af þessu ákveðinn lærdóm og bregðast við með viðeigandi hætti, þ.e. að endurskipuleggja bankakerfið og sameina banka og innlánsstofnanir.

Í frv. því sem ég mæli fyrir um víðskiptabanka er líka ákvæði sem kveður á um upplýsingaskyldu ráðherra til Alþingis að því er varðar hag og rekstur ríkisviðskiptabankanna. Í 10. gr. núgildandi laga um viðskiptabanka er kveðið á um að ráðherra geti krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag banka. Sú viðbót sem ég legg til með þessu frv. að bætist við þetta ákvæði er að það verði sett skýrt ákvæði um að unnt sé að fá fram á Alþingi upplýsingar um rekstur og hag banka, t.d. með fsp. til ráðherra eða beiðni um skýrslu. Ég tel að reynslan sýni ljóslega að nauðsynlegt sé að lögfesta slíkt ákvæði því að margoft hefur framkvæmdavaldið neitað Alþingi um upplýsingar er snerta hag og rekstur banka þegar leitað hefur verið eftir þeim. Væri slík upplýsingaskylda ráðherra lögfest veitti hún Alþingi nauðsynlegt svigrúm til að halda uppi virku eftirliti og aðhaldi með starfsemi ríkisviðskiptabanka.

Herra forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Ég treysti því að hv. Alþingi og nefnd sú sem málið fær til umfjöllunar veiti þessu máli brautargengi og að samstaða náist um að lögfesta þau ákvæði sem hér er gert ráð fyrir. Það liggur fyrir og er staðfest að a.m.k. ríkisviðskiptabankarnir hafa farið langt út fyrir öll eðlileg mörk í lánafyrirgreiðslu til einstakra aðila. Þegar liggur fyrir afleiðing þess hjá einum ríkisviðskiptabanka. Það er skylda Alþingis að búa svo um í löggjöf að slíkt geti ekki endurtekið sig og að Alþingi tryggi eins og kostur er að sparifjáreigendur geti ekki orðið fyrir gífurlegu fjárhagstapi eða að skattgreiðendur eigi ekki alltaf yfir höfði sér að fá sendan reikninginn vegna óhóflegrar fyrirgreiðslu bankanna til einstakra viðskiptaaðila.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. um viðskiptabanka vísað til hv. fjh.- og viðskn. sem og því frv. sem síðar er hér á dagskrá um sparisjóði, að því verði einnig vísað til hv. fjh.- og viðskn.