12.02.1986
Neðri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

245. mál, viðskiptabankar

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni hvað bankakerfið hefur liðið við að einstök fyrirtæki hafi fengið óeðlilega háa fyrirgreiðslu miðað við eiginfjárstöðu bankakerfisins. Út af fyrir sig er það alveg rétt. Hún telur að af þeim ástæðum sé rétt að endurskoða útlánastefnu bankanna og þá beindi hún í ræðu sinni athyglinni að útlánum bankanna til innlendra aðila. Það eru talin vera óhæfilega mikil útlán miðað við eiginfjárstöðu bankanna. En hver er eiginfjárstaða bankanna? Af hverju er athyglinni beint að einu fyrirtæki sem hefur fallið í þá ógæfu að þurfa að loka þó ekki skuldugra en svo að það munar kannske einum og hálfum til tveimur togurum sem nú er verið að gera upp en er þó með fimm til átta eða níu farskip í ferðum á milli landa, á þessu eylandi langt úti í Atlantshafi?

Það var nýlega frétt í sjónvarpi, ríkisfjölmiðlum, frá Landsbanka Íslands þar sem getið var um að greiðslustaða bankans væri um 500 millj. kr. í mínus. Í þeirri frétt var ekki talað um hver yfirdráttur bankans væri þá hjá Seðlabankanum. En það er annað sem kom fram, sem ég vona að hv. þm. hafi tekið eftir, að útistandandi kröfur Landsbanka Íslands voru sagðar í þessari frétt vera 29 milljarðar. Nú hefur líka komið fram að heildarnettóeign bankanna og sparisjóðanna í landinu ku vera um 3,7 milljarðar. Einhverjir aðilar sem hafa lánað Landsbanka Íslands þennan mismun hljóta þá að vera í hættu sem er þó minni en upphæðirnar gefa tilefni til að óttast vegna þess að það er ríkisábyrgð á bak við þessar peningastofnanir.

Ég legg því til að þær hv. nefndir sem fá þessi mál til athugunar skoði meira en bara útlánastefnu bankanna, líka lánastefnu bankanna almennt, bæði lán sem þeir taka í eigin nafni og í nafni annarra, og á ég þá við ábyrgðir sem þeir veita sínum viðskiptavinum. Þetta er stóra hættan í málinu, ekki þó eitt og eitt fyrirtæki fari yfir um af eðlilegum ástæðum.

Umr. frestað.