13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á s.l. ári var skipuð nefnd til að vinna að gerð lagafrumvarps um lögverndun starfsheitis kennara. Sú nefnd hefur lokið störfum og eru tillögur nefndarinnar í formi frumvarpsdraga sem mér voru afhent í morgun. Þau munu nú svo fljótt sem kostur er ganga fyrir hæstv. ríkisstj. og að því búnu mun því verða hraðað að frumvarpið verði lagt fyrir hið háa Alþingi.

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir lögverndun starfsheitanna grunnskólakennari og framhaldsskólakennari. Frumvarpsdrögin fela enn fremur í sér endurskoðun á lögum nr. 51/1978 um embættisgengi kennara og skólastjóra.