13.02.1986
Sameinað þing: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

213. mál, laun, samnings- og verkfallsréttur og lögverndun á starfsheiti kennara

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er eins og mig minni að hv. 5. þm. Austurl. hafi átt sæti í ríkisstjórn í nálægt fimm ár. Það er að vísu ekki tími til þess nú, hvorki fyrir mig til þess að orðlengja um það mál né heldur að krefjast svara við þeim fyrirspurnum hvort ekkert hafi á skort í réttindum kennara allt það tímabil og einnegin að fá upplýst með hvaða hætti stuðlaði þessi hæstv. þáv. ráðherra að lausn þeirra mála. Þessi yfirboð og það kjaftæði sem hér gengur á hjá þessum hv. þm. tekur auðvitað engu tali. Hann gleymdi aðeins einu í málafærslu sinni og það var að biðja kennara afsökunar á að hafa narrað þá hingað niður eftir erindisleysu á þriðjudaginn var.