13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2563 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

229. mál, skólasel

Kristín S. Kvaran:

Hæstv. forseti. Ég er að vísu meðflm. þessarar þáltill. en vil gjarnan lýsa yfir stuðningi mínum við þessa till., ítreka mikilvægi hennar og þakka hv. 1. flm. fyrir að bera hana fram.

Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ráða bót á þessum mikla vanda sem þarna kemur fram. Ég vil gjarnan hér minnast ferðar sem ég fór þegar ég var kennari við Fósturskóla Íslands. Þá fór ég á foreldrafund við heimavistarskóla þar sem fóstra var starfandi með yngstu börnin sem er víst í örfáum tilfellum. Ég veit að vísu ekki hvort svo er nú en alla vega var það þá í nokkrum tilfellum. Þessi fóstra hafði talað við mig fyrir fram og beðið mig að koma á þennan foreldrafund vegna þess að foreldrarnir væru mjög órólegir um hag barna sinna. Vildi hún biðja mig að segja, í örfáum orðum a.m.k., frá þeirri menntun t.d. sem hún hefði og hvernig hún væri þá að mínu mati í stakk búin einmitt til að bregðast við því að vera starfandi á slíkum stað sem þessum.

Þegar hún talaði við mig um að koma á foreldrafundinn var hún að lýsa fyrir mér því að henni fyndist að það væri nánast um það að tefla að sálarheill barnanna væri í veði. Þarna væri mikið um grát á kvöldin, einmanaleikinn væri oft yfirþyrmandi og börnin ættu í miklum erfiðleikum. Stríðni tíðkaðist mikið og miklu meira en í almennum skólum þar sem hún þekkti til og hafði kennt. Þetta leiddi oft til þess að hennar mati og varð þess valdandi að þau fóru að væta rúmið í miklu meiri mæli en verið hafði áður og stríðnin þar af leiðandi jókst eftir það. Þetta leiddi að sjálfsögðu til þess að börn áttu í miklum erfiðleikum með nám sem ella áttu það ekki. Ég vil taka það til að á þessum fundi voru spurningar foreldranna eftir mína stuttu framsögu um þetta mál með miklum ólíkindum. Þeir höfðu greinilega miklar áhyggjur af börnunum og þótti þetta nánast alfarið óviðunandi ástand.

Þess vegna vil ég taka undir það, sem kemur fram í þessari þáltill., að það eru mjög miklar líkur á því að foreldrunum sé allsendis ókunnugt um þennan möguleika. Ég tel að það sé brýn þörf á að kynna þennan möguleika og að þessi lagaheimild verði nýtt.

Þetta var í örstuttu máli það sem ég vildi að kæmi fram við þessa umræðu.

Umr. (atkvgr.) frestað.