13.02.1986
Sameinað þing: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

261. mál, afplánun dóma vegna fíkniefnabrota

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir þessa till. og styðja hana fyrir hönd Kvennalistans.

Ég vil enn fremur leggja áherslu á að það þarf ekki bara að hraða afplánun dóma. Það þarf, eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, að hraða málsmeðferðinni allri í gegnum dómskerfið. Það er mjög mikilvægt. Og ég tek undir það sem fyrri ræðumaður nefndi, hv. þm. Helgi Seljan, að það er mjög mikilvægt að menn sem hafa breytt hegðun sinni og eru, eins og hann sagði, orðnir aðrir menn tveim, þrem árum síðar þurfi ekki þá að brjóta upp fjölskyldulíf sitt og fara og afplána dóm fyrir hegðun sem þeir eru orðnir fráhverfir. Það er mikið atriði.

Í annan stað: Þeir sem hafa staðið í sölu fíkniefna eru oft stórskuldugir. Þeir þurfa að borga skuldir og þurfa mjög fljótt að skipuleggja næstu sendingu og sölu fíkniefna til að greiða þá fyrri. Þetta er vítahringur sem verður ekki rofinn nema með því að taka menn úr umferð. Ég styð því þessa till.