17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

271. mál, fjarnám ríkisins

Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um fjarnám ríkisins, en frv. hefur verið dreift og er á þskj. 505. Heitið fjarnám felur í sér fræðslu og nám þar sem þeir sem námið stunda hafa aðsetur fjarri þeim sem fræðsluna veita.

Fjarnám hefur alllengi verið iðkað á Íslandi. Telja verður að það hafi byrjað þegar Bréfaskóli Sambands ísl. samvinnufélaga var stofnaður haustið 1940. Bréfaskólinn hefur gegnt og gegnir enn mikilvægu menntunarhlutverki. Um 25 ára skeið var uppi allmikið samstarf milli Bréfaskólans og Ríkisútvarpsins. Aðallega var þar um framburðarkennslu tungumála að ræða. Þessi samvinna lagðist af þegar endurnýja þurfti kennsluefni, þ.e. seint á sjöunda áratugnum. En sá áratugur hefur einmitt víða verið nefndur blómatími fullorðinsfræðslunnar og skýtur þarna allskökku við um þróun mála hér á landi og erlendis, því að í sama mund og hljóðvarps- og sjónvarpsfræðsla efldist erlendis visnaði sá vísir sem að henni var hér á landi. Eftir stofnun sjónvarpsins íslenska voru á dagskrá þess nokkrir kennsluþættir sem byggðu á bóknámi og útsendingum sjónvarps. En veigamesta kennsluefnið sem Ríkisútvarpið hefur haft á boðstólum á undanförnum árum er án efa Hildur, kennsluefni í dönsku fyrir sjónvarp og hljóðvarp, ásamt lesefni. Efnið hefur einnig fengist á hljóðböndum og myndböndum. Þetta efni var gert í samvinnu Dana og Íslendinga og fjármagnað að stórum hluta af Dönum. Margir ágætir fræðsluþættir eru á dagskrá sjónvarps og hljóðvarps, en engin heildarskipulagning er þar á né samvinna við fræðslustofnanir um nýtingu efnis.

Nokkrar umræður um skipulagningu fjarnáms hafa átt sér stað hér á landi á umliðnum áratug. Árið 1974, nánar tiltekið þann 26. ágúst, var stofnuð nefnd þriggja manna til að gera tillögur um nýtingu sjónvarps og útvarps til kennslu bæði fyrir almenning, svo sem í sambandi við fullorðinsfræðslu, og einnig í þágu skóla. Í nefndinni sátu Andri Ísaksson prófessor, formaður nefndarinnar, Andrés Björnsson útvarpsstjóri og Benedikt Gröndal alþingismaður. Nefndin skilaði áliti að fimm árum liðnum og bar það heitið Útvarpsskólinn, álit útvarps- og sjónvarpsfræðslunefndar. Aðalatriðið í tillögum nefndarinnar var að stofnað skuli til fastrar og aukinnar fræðslustarfsemi í Ríkisútvarpinu, útvarpi og sjónvarpi, fyrir almenning og beri sú fræðslustarfsemi nafnið Útvarpsskólinn. Gert er ráð fyrir að samvinna verði milli menntmrn., Ríkisútvarpsins og frjálsrar fullorðinsfræðslu í þessu sambandi.

Nefndin mun hafa lagt mikla vinnu í gerð tillagna sinna, en þær virðast enn sem komið er ekki hafa hlotið þann byr sem skyldi. Nú hefur hæstv. menntmrh. skipað nýja nefnd sem fjalla á um fjarkennslu á æðri stigum menntakerfisins og vil ég vona að sú nefnd gaumgæfi bæði þessar tillögur og aðrar sem nýta má.

Í frv. til laga um fullorðinsfræðslu, sem Vilmundur Gylfason, þáv. menntmrh., lagði fram á Alþingi 7. febr. 1980, voru tvær greinar er varða fjarnám sérstaklega, þ.e. 4. gr. sem fjallar um fullorðinsfræðslu í Ríkisútvarpi og tengsl þess við aðra fullorðinsfræðslustarfsemi í landinu og 5. gr. sem fjallar um það sem þar er nefnt Farnámsflokkar Íslands og er hliðstæða þess sem hér er nefnt fjarnám.

Nú liggur hér fyrir frv. til laga um fjarnám ríkisins þar sem augum er fyrst og fremst beint að fræðslu og námi þeirra sem minnsta skólamenntun hafa. Frv. gerir ráð fyrir samvinnu og samhæfingu þeirra krafta sem virkja mætti til fræðslunnar, svo sem útvarps- og bréfaskóla og þeirra aðila sem stunda skipulagða fræðslu á þessum stigum, þ.e. í efri bekkjum grunnskólastigs, framhaldsskóla, svo og í starfsnámi ófaglærðra, sem er harla óplægður akur enn sem komið er, en þeim mun mikilvægari.

Í útvarpslögum nr. 68/1985 segir svo í 16. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisútvarpið skal starfrækja fræðsluútvarp í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal veita til þess fé á fjárlögum.“ Samkvæmt þessari grein ætti því samvinna við Ríkisútvarpið að vera sjálfsögð. Bréfaskólinn er aftur á móti sjálfstæð stofnun í eigu ýmissa félagasamtaka og ekkert í lögum sem knýr þau til samstarfsins, en gera má ráð fyrir að þau séu fús til þess þar eð slíkt samstarf er hér um ræðir mundi efla bréfaskólann til muna. Fjarnám ríkisins mundi einnig annast sjálft bréfafræðslu þar sem þurfa þætti.

Í grg. með frv. er sagt frá innihaldi hinna ýmsu kafla og greina og ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa kafla úr henni. Í athugasemdum með 1. gr. stendur:

„Víða úti um land eiga skólar í erfiðleikum með að veita þá fræðslu sem óskað er vegna fámennis eða kennaraeklu. Við slíkar aðstæður mun fjarnám og fjarfræðsla koma skólum og nemendum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi að góðum notum, einnig sem viðbót við kennslu í einstökum kennslugreinum. Margir nemendur búa svo afskekkt að þeir verða að dveljast langdvölum að heiman til að fá almenna skólafræðslu. Fjarnám og fjarfræðsla gæti stytt þeim dvölina að heiman og lækkað námskostnað þeirra til muna. Ekki síst mundi fjarnám koma fullorðnum að gagni þar eð þeir eiga enn erfiðara um vik að sækja nám fjarri heimaslóðum en ungmennin. Vaktavinnufólk og fólk með skerta ferligetu mundi með fjarnámi fá mjög bætta aðstöðu til náms.

Í greininni er einnig rætt um starfsnám. Þar er átt við starfsnám ófaglærðs starfsfólks í mörgum greinum, ekki síst í höfuð- og undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, en þar er um lítt plægðan akur að ræða og brýnt að úr verði bætt hið fyrsta. Í annan stað er mikill skortur á starfsnámi fyrir ófaglært fólk í umönnunarstörfum sem unnið gæti við hlið hinna faglærðu.“

Um meginmarkmið laganna er það að segja að þeim er ætlað að jafna aðstöðu fólks, bæði ungmenna og fullorðinna, til náms. Í dreifbýlu landi eins og Íslandi ber nauðsyn til að gera ráðstafanir til að létta þeim námsöflun sem strjált búa. Það er alkunna að fullorðnir vinna langan vinnudag hér á landi og margir bera þungar fjárhagslegar byrðar. Frá ábyrgð og skyldum getur fólk ekki hlaupist og þær verða því oft fjötur um fót þegar náms skal afla til að bæta afkomu og lífsaðstöðu. Þennan vítahring, sem margir eru í, þarf að rjúfa.

Fjölmargar aðrar ástæður geta legið til þess að fjarnám er eina færa leiðin fyrir þá sem búa við skerta ferligetu og aðra er stunda vaktavinnu eða eru bundnir yfir börnum og sjúkum.

Í annan stað er það markmið laganna að efla og samhæfa þá mörgu tiltæku miðla sem lítt eða ekki eru nýttir til skipulagðs náms og fræðslu í landinu. Í greininni er það nýmæli að þar er rætt um fræðslustöðvar. Þar er átt við það að í hverju fræðsluumdæmi þarf að vera ein stöð a.m.k. sem þeir er fjarnám stunda geti leitað til og fengið leiðsögn og nýtt kennslugögn og tæki þar. Fræðslustöðin væri best komin í nánum tengslum við kennslugagnamiðstöðvar þær sem koma þarf upp í fræðsluumdæmunum, en á meðan slíkar kennslugagnamiðstöðvar eru ekki til væru fræðslustöðvar fjarnáms í tengslum við fræðslustjóra hvers umdæmis.

Þar sem rætt er um námsefni það sem helst þyrfti að kenna í fjarnámi ríkisins eru taldar upp í 6. gr. ýmsar greinar sem reynsla hefur sýnt að er mikill hörgull á kennslu í og þörf á að bæta við, þ.e. almennar kjarnagreinar svo sem eins og íslenska, stærðfræði, danska og enska. Það er alls staðar og alltaf þörf fyrir aukna kennslu í þessum greinum. Þá eru námsgreinar sem erfitt er að veita kennslu í á fámennari stöðum, svo sem eins og raungreinar, sænska og norska. Sænska og norska eru olnbogabörn í íslensku menntakerfi enn sem komið er. Við þetta mætti bæta löngum lista verklegra og huglægra greina, til að mynda uppeldis- og sálarfræði og tölvufræðum. Listinn er í rauninni óendanlegur. Því er verkefnið stórt sem í má ráðast.

Í þriðja lagi er námsefni handa ófaglærðu fólki til fræðslu sem skv. kjarasamningum eða ákvörðun stjórnvalda ætti að vera í boði. Um námsefni ófaglærðs fólks er það að segja að vinda þarf bráðan bug að samantekt þess, en það mundi verða í verkahring starfsfólks fjarnámsins og í samvinnu við þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.

Á síðustu árum hafa komið til sögu æ fleiri náms- og fræðslumiðlar og eru þeir helstu nefndir í 7. gr. og öllum raunar kunnir hér, en öflugasta fræðslan fer þó fram frá leiðbeinanda til nemanda. Því er mikilvægt að í fræðslustöðvum sé starfsmaður með góða almenna kennaramenntun og að til námskeiðanna, sem gert er ráð fyrir að haldin séu í sambandi við fjarnám ríkisins, verði valdir hæfustu kennarar. Á námskeiðunum mundi svo fara fram ýmislegt sem ekki er hægt að fara með annars staðar, t.d. tilraunir og talæfingar í tungumálum. Þar mundu einnig vera námshópar, umræðuhópar sem fjölluðu um hin margvíslegustu efni í huglægum greinum.

Í 8. gr. er rætt um að próf og kunnáttukannanir yrðu með sama hætti og fræðslan, þ.e. með heimaverkefnum og prófum og námskeiðum eða í skólum eftir því sem handhægast þætti í hvert sinn. Í greininni er einnig getið um það sjálfsagða atriði að námsmat frá fjarnámi ríkisins skuli vera jafngilt námsmati hins almenna skólakerfis, enda ættu nemendur með slíkt námsmat rétt á inngöngu í skóla til jafns við nemendur úr hinu almenna skólakerfi. Telja verður eðlilegt að námsmat úr starfsnámi verði hægt að meta til stiga eða punkta til jafns við valgreinar á framhaldsskólastigi. Þetta er nýtt fyrirbæri sem ég nefni hér, en eiginlega mjög nauðsynlegt að komi inn í lögin og verður alla vega að vera í reglugerð um þau.

Í 9. gr. er rætt um yfirstjórn fjarnáms ríkisins, að hún eigi að vera í höndum menntmrn. en að ráðuneytinu beri að hafa sem víðtækast samráð við þá sem hagsmuna eiga að gæta. Þar er m.a. um að ræða sveitarfélög og verkalýðsfélög og svo einnig þá aðila sem miðlun fræðslunnar munu annast. Það mun sennilega nauðsynlegt að setja á stofn samstarfs- og samráðsnefndir til að sjá um framkvæmd þessara laga.

Í 10. gr. er rætt um starfslið fjarnáms ríkisins. Í miðstöð fjarnáms yrði að vera starfandi fjarnámsstjóri og fagstjórar auk aðstoðarfólks, en í fræðslustöðvum yrðu einnig að vera einn eða fleiri leiðbeinendur eftir því sem þörfin leiddi í ljós að yrði að vera. Miðstöð fjarnáms yrði komið fyrir í námunda við Námsgagnastofnun ríkisins og ætti náið samstarf við hana svo og aðra sem miðla mundu fræðsluefni. Fræðslustöðvar yrðu að vera a.m.k. ein í hverju fræðsluumdæmi og væri komið fyrir, eins og áður er sagt, í námunda við kennslugagnamiðstöðvar eða fræðslustjórana. Auk þess starfsfólks sem hér hefur verið nefnt er líklegt að lausráða þurfi kennara til að kenna á námskeiðum sem haldin yrðu um landið.

Í 11. gr. er rætt um kostnað við fjarnám ríkisins, að hann verði greiddur á sama hátt og við hið almenna skólahald í grunn- og framhaldsskóla. Um kostnað hljóðvarps og sjónvarps þurfa að koma til þær reglur sem um útsendingu annarra dagskrárliða gilda. Um kostnað við gerð námsefnis starfsnáms og kennslu á þeim vettvangi yrði að setja sérstök reglugerðarákvæði unnin í samvinnu við fulltrúa ríkisins, stéttarfélög og vinnuveitendur.

Líklegt er að setja verði tvær reglugerðir um fjarnám ríkisins, aðra um nám sem er hliðstætt almennu skólanámi, hina um starfsnámið. Þó að lög þessi hafi að geyma ýmis nýmæli er auðvelt að hrinda þeim í framkvæmd og fimm ára undirbúningstími ætti því að vera yfrið nægur.

Í 14. gr. er svo getið um endurskoðun þessara laga. Frv. þetta um fjarnám ríkisins er ekki sett fram til að leysa af hólmi stofnanir sem fræðslu stunda í landinu og hafa haldið uppi fjarnámi eða fullorðinsfræðslu í einhverri mynd heldur er því ætlað að efla og örva samstarf þeirra og fylla upp í þau skörð sem kunna að vera í framboði náms og fræðslu. Hverri þjóð sem vill kenna sig við menningu og framfarir er þörf á því að halda uppi fjölbreyttri fræðslu fyrir þegna sína og því betri sem grunnfræðslan er, þeim mun líklegra er að háu marki verði náð á efri stigum skólakerfisins. Þess vegna fjallar frv. um fjarnám á undirstöðustigum menntunar bæði almennrar og verklegrar.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðu um frv. legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og menntmn.