17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

271. mál, fjarnám ríkisins

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv.

Ef ég skil hv. flm. rétt er þetta frv. fyrst og fremst flutt til að fylla í skörðin þar sem á skortir í okkar menntakerfi. Ég vil hins vegar vara við því að það kunni að verða togstreita á milli fræðslustöðvanna og fræðslustjóranna ef þetta frv. verður að lögum. Ég hefði kosið að það væri kveðið á um meira samstarf þar á milli, einfaldlega vegna þess að það getur komið til mjög örðugt mat skv. frv. hvort upp skuli taka svokallað fjarnám eða hvort haldið verði áfram eðlilegri uppbyggingu skólastarfs. Þá er ég ekki síst með í huga skóla víða út um land, út um hinar dreifðu byggðir.

Sannleikurinn er sá að enn þá skortir mjög mikið á að grunnskólakerfið hafi verið byggt upp eins og lög mæla fyrir um. Við þekkjum það vegna árlegrar umfjöllunar um fjárlög hversu miklar fjárhæðir vantar til að standa við lög í þessum efnum, byggja upp okkar grunnskólakerfi eins og lög gera ráð fyrir..

Ég er ekki með þessum orðum að víkja mér undan því að taka ásamt öðrum á þessu máli, síður en svo, en ég vil vara við því að við flýjum ekki, ef ég má svo að orði komast, úr einu víginu í annað.

Okkur er öllum að sjálfsögðu fullkunnugt um að það er örðugur rekstur ýmissa skóla úti á landsbyggðinni. Þeir erfiðleikar stafa af ýmsum ástæðum. Við skulum segja sem svo að fleiri en færri nytu svokallaðs fjarnáms í hinum fámennari byggðum. Hvernig yrði um viðkomandi skóla? Að sjálfsögðu yrði enn þá örðugra að reka skóla í viðkomandi umdæmi. Ég vil aðeins benda á þetta. Auðvitað kemur þetta allt til mats.

Ég hygg að skv. 4. gr. frv. geti slíkt mat reynst mjög örðugt í sannleika sagt, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Allir þeir sem eru ofar skólaskyldualdri eiga rétt á þátttöku í fjarnámi, svo og þeir á skólaskyldualdri sem vegna ytri aðstæðna eða persónulegra ástæðna verða að nýta sér fjarnám fremur en samfellda skólasetu.“

Hins vegar vil ég taka undir með fjölmörgum sem að því hafa vikið, reyndar ekki í þessari umræðu, hversu nauðsynlegt er að skólakerfið okkar sé hreyfanlegt. Þjóðfélagið breytist allört og við megum ekki steinrenna þegar um skólakerfið er að ræða. Það þarf að vera nokkuð hreyfanlegt.

Að öðru leyti ætla ég ekki að víkja að þessu frv. Ég tek undir með öðrum ræðumönnum að hér er hreyft þörfu máli, en við þurfum að skoða það vel. Ég sakna þess að vísu að ekki er gerð tilraun til að meta hugsanlegan kostnað af frv. Ég geri engar kröfur um það og e.t.v. er tæplega hægt að ætlast til þess af hálfu flm. að slíkt kostnaðarmat liggi fyrir, enda geri ég mér grein fyrir því að ef fjarnámi af þessu tagi yrði komið á eða fjarfræðslu veit enginn í hversu ríkum mæli slíkt yrði.