17.02.1986
Efri deild: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2582 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

271. mál, fjarnám ríkisins

Flm. (Guðrún J. Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka og fagna því hversu jákvæðar undirtektir hafa verið undir þetta frv. af hálfu þeirra sem hér hafa tekið til máls. Örlítið hefur þó örlað á misskilningi.

Hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinsson, sem er ekki í salnum núna, hélt að það mundi verða mikil togstreita milli fræðslustjóra og fræðslustöðvanna. Það má vera. Ég held þó að með góðum vilja muni vera hægt að komast fram hjá því. Einnig vil ég undirstrika það, sem kom fram hjá hæstv. menntmrh., að þessi fræðsla er ekki hugsuð til að brjóta niður skólana úti um landíð heldur á hún að verða þeim stoð og stytta í fræðslunni. Ég er alveg viss um að það er fullt af skólum út um allt land sem þurfa að fá hjálp til að halda uppi kennslu í fögum sem erfitt er að fá kennara í. Þarna sé ég einmitt góða aðferð til þess. Það stendur í 4. gr., sem hv. 5. þm. Vesturl. vitnaði í, dálítið sem hv. þm. sleppti. Hann las ekki lok 4. gr. þar sem stendur: ". . . eða sem viðauka og uppbót á það skólanám sem í boði er á heimslóðum nemenda.“ Það liggur einmitt á bak við þessi orð að skólar sem vegna fámennis eiga erfitt með að bjóða upp á margslungna kennslu geti leitað til fjarnáms ríkisins og fengið fræðslu handa nemendum sínum á þann hátt.

Hæstv. menntmrh. nefndi það að nefnd sú sem hann hefur stofnað eigi að fjalla um hvers lags fjarkennslu. Ég fagna því. Ég var á umræddum fundi á laugardaginn og þá virtist mér að eingöngu væri rætt um að þessi nefnd mundi fjalla um kennslu á háskólastigi og hugsanlega í tveimur efstu bekkjum menntaskóla. Það er þá misskilningur af minni hálfu.

Hann ræddi einnig um að það væri skemmtileg tilhugsun að geta sinnt fötluðum og öldruðum og veitt þeim fræðslu heima. Þetta er rétt og nauðsynlegt. En í því sambandi vildi ég líka benda á að fyrir aldraða og fatlaða er einmitt samkoman sjálf, þ.e. að hittast og læra saman og vinna saman, afskaplega mikils virði. Þetta þarf því að vera blandað og gerir hann sér vafalaust grein fyrir því.

Hv. 6. landsk. þm. ræddi um námsefni ófaglærðs starfsfólks og talaði um að það væri af hinu góða að fræða fólkið sem mest um það efni sem starfi þess viðkemur. Það er auðvitað hárrétt. Ég hef nokkra reynslu af því sjálf að reka námskeið fyrir ófaglært starfsfólk í umönnunargreinum. Ég hef séð, og undirstrika það hér, að það er ekki alveg nóg að kenna fólkinu bara það sem viðkemur daglegu donti þess. Það veitir því einnig afskaplega mikla reisn, ef þannig má að orði komast, að fræða það um ýmislegt fleira sem viðkemur lífi þess og kannske tengist starfinu en er ekki beint fræðsla um hvernig það eigi að vinna starfið. Vegna þeirrar reynslu að hafa horft upp á fólkið verða beinna í baki og djarfara bara af því að fá fræðslu sem viðkemur störfunum en er ekki kannske beint um starfið sjálft, þá vil ég endilega að það gleymist ekki. Það mætti gjarnan fjölga þessum tíu sinnum fjórum tímum um tuttugu tíma og bara með slíku efni. Ég meina þá tímana sem hann nefndi að færu í fræðslu fiskverkafólks.

Ég fagna þeim jákvæðu undirtektum sem málið hefur fengið hér og ég vona að það muni fá í framtíðinni jákvæða umfjöllun. Að lokum vildi ég geta þess að þó að fjarnám ríkisins heyri undir menntmrn. er í 9. gr. gert ráð fyrir að haft sé sem mest samstarf við þá aðila sem hagsmuna hafa að gæta. Þar hlýtur náttúrlega líka að vera um að ræða þau ráðuneyti sem hafa með mál hinna ýmsu atvinnuvega og starfsgreina að gera. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að sjútvrn. fjalli um og hafi yfirumsjón með kennslunni þó að menntmrn. síðan styðji það með fjarnámi ríkisins.