18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

220. mál, útflutningur á ferskum fiski

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mér var ekki ljóst fyrr en nú hvað lá að baki þessarar fsp., en í stuttu máli get ég svarað þessari fsp. með einu orði og það er nei. Ég tel að ekki sé ástæða til að koma í veg fyrir að einstök veiðiskip selji meiri hluta fiskafla síns á erlendum markaði einfaldlega vegna þess að ákveðin skip hafa einkum sérhæft sig í því og hafa getið sér góðan orðstír á erlendum mörkuðum og þessum mörkuðum þarf að sinna sem öðrum.

Ég get nefnt sem dæmi að veiðiskip hafa landað erlendis nánast sama magni í mörg ár. Á fjögurra ára tímabili eru það um 35 þús. tonn á ári. Hér er um markaðina í Bretlandi og Þýskalandi að ræða sem hafa reynst okkur verðmætir. Þótt auðvelt sé að selja allan fisk núna kann að verða erfitt að komast inn á þessa markaði þegar syrtir að í markaðsmálum okkar.

Að því er varðar gámafisk hefur sá útflutningur farið vaxandi. Hann varð mestur 1985 eða um 32 þús. tonn. Þetta eru 10-11% af botnfiskaflanum sem flutt eru með veiðiskipum eða gámum til útlanda.

Það hefur nýlega verið ákveðið að lækka þær uppbætur sem greiddar eru vegna gámafisks og trúlega verður það til að draga úr þeim útflutningi. Ástæða er til að reyna að koma málum þannig fyrir að ekki sé jafnmikið flutt út með gámum. Vissulega er ég þess fýsandi að sem mest af afla sé unnið innanlands til að skapa sem mesta atvinnu. Hins vegar þurfum við að gæta þess að sinna sem best öllum okkar mörkuðum, sérstaklega með tilliti til þess að litlar líkur eru á því að skreiðarmarkaðir muni opnast að nýju. Því tel ég ekki ástæðu til þess að svo komnu máli að setja sérstök ákvæði um þetta í fiskveiðilöggjöfina. Hins vegar eru veitt útflutningsleyfi fyrir öllum fiski sem seldur er á erlendan markað og ef ástæða þykir til að grípa á einhverju stigi inn í tel ég rétt að gera það hvað snertir útflutningsleyfin.