18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2595 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

241. mál, innkaup á innlendum iðnaðarvörum

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 470 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Til hvaða aðgerða hefur ríkisstj. gripið til að stuðla að opinberum innkaupum á innlendum iðnaðarvörum eftir að samstarfsnefnd um opinber innkaup var lögð niður haustið 1983?"

Ég leyfi mér að fara örfáum orðum um stefnu í þessum málum á fyrri árum, en það var við myndun ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980 að í stjórnarsáttmála um iðnaðarmál var getið sérstaklega um að ríkisstj. vildi stuðla að opinberum innkaupum og marka um það stefnu.

Það gerðist svo á Alþingi 2. apríl 1981 að samþykkt var þáltill. Flm. hennar var hv. 6. þm. Suðurl. Eggert Haukdal. Með þeirri samþykkt Alþingis var ríkisstj. falin athugun á leiðum til að auka verulega innkaup ríkisins, sveitarfélaga og stofnana á íslenskum iðnaðarvörum og bent m.a. á að nota skyldi markvisst útboð í þessu samhengi.

Þann 1. júní 1982 flutti ég till. í ríkisstj. sem iðnrh. um opinbera innkaupastefnu og þar var gerð sérstök ríkisstjórnarsamþykkt sem gerði ráð fyrir fyrirmælum til stofnana og fyrirtækja ríkisins varðandi opinber innkaup. Þessi samþykkt var í fimm liðum og samkvæmt henni var ákveðið að skipa sérstaka samstarfsnefnd um opinber innkaup, sjö manna nefnd, sem m.a. var skipuð fulltrúum frá samtökum iðnrekenda, svo og frá verkalýðshreyfingunni sem lagði þar til menn á móti, en forustu hafði deildarstjóri í iðnrn. Jafet Ólafsson.

Þessi nefnd hélt allmarga fundi, en síðan urðu stjórnarskipti og þann 30. okt. 1983 ákveður þáv. iðnrh. að leggja nefndina niður og hún lauk þá störfum.

Þessi mál komu til umræðu hér á hv. Alþingi síðast að ég veit þann 18. des. 1984 af tilefni fsp. frá hv. 6. þm. Suðurl. og þá fyrst var það upplýst að þessi samstarfsnefnd um opinber innkaup hefði verið afmunstruð af hæstv. fyrrv. iðnrh.

Þáv. ráðherra iðnaðarmála, Sverrir Hermannsson, gat um fyrirmæli sem hann hafði gefið um þessi efni í ársbyrjun 1984 sem m.a. gerðu ráð fyrir að opinberar stofnanir og ráðuneyti skiluðu skýrslu til iðnrn. um hvernig framfylgt væri þessum málum. Ég beini fsp. til hæstv. núv. iðnrh. um þessi mikilsverðu mál til þess að forvitnast um hvernig núv. ríkisstj. heldur á þeim og hæstv. iðnrh. sérstaklega.