29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

51. mál, Sjóefnavinnslan á Reykjanesi

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mun svara hv. fyrirspyrjanda án þess að endurtaka spurningar hans í þeirri númeraröð sem þær eru á þskj. 51.

1. Ekkert varð úr þessari úttekt vegna þess hversu kostnaðarsöm hún hefði verið en áætlun Háskólans hljóðaði upp á 4 millj. kr. Áætlunin gerði ekki ráð fyrir að leitað yrði leiða til þess að finna nýja framleiðslu sem samnýtti aðstöðu með saltframleiðslunni á Reykjanesi og bætti rekstrarstöðu fyrirtækisins. Ljóst er að fleira þarf að koma til en framleiðsla salts, ef ná á endum saman.

Ég vil leyfa mér að svara 2. og 3. spurningu saman.

Svar mitt er svohljóðandi:

Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri hafa nýlega skilað tillögum til iðnrh. og fjmrh. um að lokið verði við 8 þús. tonna saltverksmiðju, og jafnframt verði komið upp við hlið saltframleiðslunnar 1560 tonna kolsýruverksmiðju. Markaðsrannsóknir, sem gerðar voru í sumar á sölu á Reykjanessalti og kolsýru, benda til þess að viðbótarfjárfestingin muni skila allt að 11-14% arðsemi á föstu verðlagi.

Helsti markaðurinn fyrir kolsýru er notkun hennar í gróðurhúsum. Samstarf hefur tekist við Félag garðyrkjubænda og Garðyrkjuskóla ríkisins um að kynna þessa nýjung og hagkvæmni þess að auka kolsýruinnihald lofts í gróðurhúsum. Fyrrv. iðnrh. og fjmrh. féllust á áætlanir stjórnar og er nú unnið að framkvæmd þeirra. Þá hefur einnig verið ákveðið að nota félagið sem vinnuvettvang rannsókna á nýtingu háhita og sölu á gufu til stórnotenda. Hefur iðnrn. veitt 3 millj. kr. styrk til félagsins vegna þessa.

Félagið kannar nú hagkvæmni þess að reisa og reka títanhvítuverksmiðju á Reykjanesi, en sú framleiðsla byggir m.a. á ódýrri gufuorku. Reyna á til þrautar að koma í verð þeirri miklu gufu sem Sjóefnavinnslan ræður yfir og er til staðar á Reykjanesi.

4. Bókfærðar eignir félagsins um áramótin 1984 voru 325 737 622 kr. og skuldir 238 857 785 kr. Þess ber að geta að gjöld umfram tekjur eru talin sem eignfærður stofnkostnaður á meðan á tilraunaframleiðslunni stendur. Bókfærðar eignir 31. ágúst s.l. voru 391 447 470 kr. og skuldir 284 445 365 kr.

Svar við 5. og 6. lið er: Framleiðsla fyrirtækisins hefur verið á bilinu 6-8 tonn af salti á sólarhring er ræðst af því á hvaða markaði saltið er framleitt. Gróft salt myndast á lengri tíma og minnkar afköst verksmiðjunnar. 15. ágúst s.l. hækkaði verð á sekkjuðu salti, seldu við verksmiðjuvegg, úr 2600 kr. í 3010 kr. hvert tonn. Verðið mun síðan breytast á þriggja mánaða fresti til viðmiðunar við vísitölu kauptaxta. Öll framleiðslan hefur selst til þessa, aðallega til síldarsöltunar. Núverandi verð tryggir viðunandi arðsemi af fjárfestingunni, sem þarf til að ljúka 8000 tonna verksmiðju, að gefnu því að öll framleiðslan seljist, eins og gert er ráð fyrir, og að kolsýruverksmiðjan taki til starfa.

Kostnaður fyrirtækisins umfram tekjur, sem flokka má undir rannsóknir, viðhald og gæslukostnað, nemur nú að meðaltali um 1 millj. og 600 þús. kr. á mánuði. Því er brýnt að stöðva núverandi fyrirkomulag og koma á hagkvæmara rekstrarfyrirkomulagi. Rekstraráætlanir næsta árs miða að því að ljúka við uppsetningu á 8000 tonna saltverksmiðju og að reisa 1560 tonna kolsýruverksmiðju. Byggingartími er áætlaður eitt ár, og viðbótarfjárfesting er áætluð 63 millj. kr. á verðlagi í september 1985. Á byggingartímanum verður reynt að standa við söluskuldbindingar Sjóefnavinnslunnar við helstu viðskiptavini, þótt framleiðslan stöðvist í einhvern tíma vegna breytinganna. Enn þá er ekki hægt að tala um eiginlegan rekstur þar sem um er að ræða tilraunaverksmiðju sem ekki er að fullu byggð.

Virðulegi forseti. Til viðbótar þessu svari mínu hef ég beðið ráðuneytisstjóra fjmrn. að bæta við það og hljóðar það svo:

„Á undanförnum árum hafa hundruð milljóna króna eða milljarðar króna runnið til rannsókna á háhitasvæðum Íslands. Þessar rannsóknir verða landsmönnum að litlu gagni nema reynt verði að nýta niðurstöður þeirra til arðbærrar framleiðslu.“

Í svari mínu áðan kom fram að öll stjórn Sjóefnavinnslunnar hf. er á því máli að það viðbótarfjármagn er setja þarf í saltverksmiðjuna og kolsýruverksmiðju mun skila 11-14% arðsemi á föstu verðlagi. Með tilliti til þessa svo og að hér er um að ræða einu tilraunina sem í alvöru er gerð til að nýta háhita til efnaiðnaðar mun Sjóefnavinnslunni verða tryggt fjármagn til þess að ljúka við 8000 tonna saltverksmiðju og 1560 tonna kolsýruverksmiðju. Verður þessa fjármagns að hluta til aflað með því að auka hlutafé en að mestu með lánveitingum af fé á svonefndum endurlánareikningi ríkissjóðs.