18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2192)

241. mál, innkaup á innlendum iðnaðarvörum

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki taka upp umræður um þá hlið þessa máls sem Guðrún Helgadóttir, hv. 10. landsk. þm., gat um en tel það að sjálfsögðu vítavert ef íslensk iðnaðarfyrirtæki gera tilboð um íslenska framleiðslu en flytja svo inn erlenda framleiðslu til þess að fullnægja sínum tilboðum. Það tel ég vítavert.

En það er rétt sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Austurl., að ég tók þetta mál upp eftir að ég kynnti mér það betur og fsp. hans hafði komið fram og ég vil upplýsa hv. þm. um það að ég var mikill talsmaður í þessa veru þegar ég var „aktífur“, ef ég má orða það þannig, í borgarstjórn Reykjavíkur og barðist fyrir því m.a. að t.d. yfirbyggingar á strætisvagna mættu vera 30% dýrari hjá innlendum framleiðendum heldur en erlendum framleiðendum. Þrátt fyrir þennan mikla mun álít ég að íslenska framleiðslan hafi verið ódýrari ef - eins og ég held að þurfi að gera þegar borin eru saman íslensk tilboð annars vegar og erlend tilboð hins vegar - menn átta sig á því að verið er að bjóða brúttótölu frá innlendum framleiðendum á móti nettótölu erlendra framleiðenda. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess - meira að segja í dag fyrir hádegi á fundi sem ég sat - að bæði skattar og útsvör, og útsvör starfsmanna, ekki bara fyrirtækja, væru dregin frá íslenskum tilboðum þegar þau eru borin saman við erlend þannig að erlendu tilboðin og íslensku tilboðin séu þá hvor tveggja á nettóverði.

Að sjálfsögðu er það skylda okkar allra að stuðla að æskilegri þróun innlendrar framleiðslu og iðnþróunar og að því mun ég sannarlega starfa áfram og er til samstarfs við hv. forvera minn í því starfi og óska eftir að fá að ræða við hann einslega um þær tillögur sem hann kann að eiga enn í fórum sínum frá sinni ráðherratíð.