18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2600 í B-deild Alþingistíðinda. (2195)

249. mál, afurðalán skreiðarframleiðenda

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég held að varla sé of mikið sagt af hv. fyrirspyrjanda að í kringum þetta mál hafi verið ansi mikill ruglingur. Og mér virðist sá ruglingur halda áfram hér í ræðu hæstv. fjmrh. Hann segir að sá dráttur sem varð á afgreiðslu þessa máls hafi m.a. og kannske aðallega verið vegna þess að skreiðareigendur hafi þurft að kynna sér yfirlýsingar sem þeir þurftu að undirrita vegna þeirrar endurgreiðslu sem verið var að undirbúa eða átti að framkvæma. Yfirlýsing Landsbankans var nú ekki merkilegra plagg en það að viðkomandi aðili þurfti að lýsa því yfir að eftir að skreiðin hefði verið seld mundi hann vera tilbúinn að endurgreiða þessa vexti. Varla hefur það getað tekið það langan tíma, sem þetta mál hefur verið að veltast í stofnunum, fyrir viðkomandi aðila að kynna sér það og vera ábyrgir fyrir því að endurgreiða ríkissjóði aftur þessa vexti ef skreiðin seldist. Það var ekki mikið meira í þeirri yfirlýsingu.

Það er annar þáttur í málinu. Hér er verið að styrkja og styðja skreiðarframleiðendur. En fyrst og fremst er verið að endurgreiða vexti hjá þeim sem hafa fengið lán út á sínar skreiðarbirgðir. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvers eiga hinir að gjalda sem ekki hafa fengið lán út á sínar birgðir? Er ekki von til þess að þeir komist einhvern veginn inn í þetta og það verði skipt upp til þeirra á svipaðan máta og til þeirra sem skulda? Sumar bankastofnanir hafa jafnvel tekið skreiðarlánin úr öðrum afurðum sem þessir aðilar hafa verið að selja í gegnum bankann og þar af leiðandi standa skreiðarbirgðir þeirra uppgreiddar og á þeim eru engin áhvílandi lán. Þeir fá ekki þessa endurgreiðslu vaxta. Hver verður hlutur þeirra?