18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

249. mál, afurðalán skreiðarframleiðenda

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið, en það kom fram í þeim að afar seint hefur gengið með þessi mál. Ég vek aftur á því athygli að í lánsfjárlögum 1985 er þessi heimild en byrjað er að huga að henni seinni part þess árs. Það er fyrst nú á þessum síðustu dögum sem farið er að láta þetta koma til framkvæmda. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru dæmigerð fyrir þá hugsun sem lýtur að sjávarútveginum hjá ríkisstj. En við skulum vona að Eyjólfur hressist, ekki síst þegar maður fær upplýsingar um það nú að jafnvel í morgun hafi verið rætt um þessi mál og talað um að fella niður gengismun af skreið sem ekki hefur verið seld sem þykir guðsþakkaverk. (Gripið fram í: 1983). Fyrir 1983, já. Mér virtist sem ráðherra þætti það guðsþakkaverk. Það þykir mér ekki. Mér finnst það sjálfsagður hlutur og eðlilegur. Enda er það svo að sá útvegur eða sú grein er lýtur að skreiðarverkun hefur átt í miklum erfiðleikum, meiri erfiðleikum en nokkur önnur grein innan sjávarútvegsins á síðustu árum.

En sem sagt, ég vona að Eyjólfur hressist og betur takist til, og ég fagna því að nú loks á árinu 1986 séu menn að sjá árangur af þeirri heimild sem var samþykkt árið 1985.