18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2601 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

249. mál, afurðalán skreiðarframleiðenda

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir að það hefur dregist allverulega að koma þessum málum frá, en rétt er að minna á að lánsfjárlög voru ekki samþykkt fyrr en komið var fram á sumar s.l. ár þannig að með öllu var útilokað að hefjast handa við þetta verk fyrr en á síðari hluta ársins vegna þess að fyrr voru lánsfjárlög ekki samþykkt. Af hálfu fjmrn. var gengið frá lánsskjölum við banka um leið og gögn komu frá þeim þannig að af hálfu ráðuneytisins hefur ekki orðið dráttur á afgreiðslu lánsskjalanna.

Varðandi fsp. hv. 4. þm. Vesturl. er rétt að minna á að heimild lánsfjárlaganna er við þetta atriði bundin en ekki önnur, en það hafa farið fram viðræður á milli ríkisstj. og skreiðarframleiðenda um ýmis atriði sem koma mættu skreiðarframleiðendum til hagsbóta í þessari erfiðu stöðu. Á tvö þeirra minntist ég fyrr í umræðunni sem ákvörðun hefur verið tekin um og frekari viðræður munu væntanlega fara fram á milli ríkisstj. og skreiðarframleiðenda um þessi efni, en heimild lánsfjárlaganna var við þetta atriði bundin.