16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska ráðherrum, gömlum og nýjum, til hamingju með sína stóla, en ég lýsi því hér með yfir að ég tel að þetta skipti í raun og veru ekki nokkru einasta máli. Ég held að í raun séum við að gera þessari ríkisstj. allt of hátt undir höfði með því að halda hérna umræðuveislu og láta eins og þetta skipti einhverju máli í pólitík. Þetta er alls ekki pólitík. Það skiptir hvorki máli hvort einn nýr þm. Sjálfstfl. verði ráðherra eða hvort tveir, þrír eða fjórir eða jafnvel allir sex hefðu komið að nýju. Það breytir engu hver þar fer með völd. Það sem skiptir máli er hverjir ráða þar á bak við og ég held að það sé hin pólitíska niðurstaða þessarar breytingar. Ég held að það sé mjög orðum aukið hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að þessu fylgi einhver pólitísk alvara. Ég held að þessu fylgi þvert á móti pólitískt alvöruleysi. Það er sú staðreynd að það skiptir engu máli hverjir fara með þau völd sem ráðherrasætunum fylgja meðan menn ekki beita nýjum aðferðum. Og þessir menn munu ekki beita nýjum aðferðum vegna þess að það verður stigið ofan á þá nú nákvæmlega eins og hefur verið stigið ofan á þá áður.

Við getum velt fyrir okkur hvaða vanda þetta gæti hugsanlega leyst. Við getum velt fyrir okkur vanda þjóðarinnar, við getum velt fyrir okkur vanda Sjálfstfl. eða við getum velt fyrir okkur vanda einstakra ráðherra. Ég held, eins og ég hef lýst, að þetta komi vanda þjóðarinnar nákvæmlega ekkert við. Hvernig halda menn t.d. að þetta leysi vanda landsbyggðar sem á við það að stríða að þar ráða menn engu orðið um sinn hlut? Þar er öllu stýrt á taumum frá valdaklíkum í Reykjavík. Halda menn að þetta leysi vanda aldraðra sem búa við öryggisleysi, sem búa við fjárskort? Halda menn að þetta leysi vanda húsbyggjenda? Sjálfstfl. hefur t.d. allra flokka staðfastlegast staðið þar gegn öllum hugsanlegum breytingum.

Menn halda kannske að þetta leysi einhvern vanda í sambandi við verðbólgu. Nú er það undarlega ástand komið upp í þessu landi að menn telja 40% verðbólgu af hinu góða. Þessi ríkisstj. kemst upp með að bera sig saman við síðustu mánuði fyrrv. ríkisstj. sem var hætt að stjórna og missti verðbólguna upp í 130%. Nú er svo komið að mönnum þykir harla gott að hafa 30-40% verðbólgu. Þeir hreykja sér af því. Málið er það að 30-40% verðbólga er óðaverðbólga og er að athlægi á öllu vestrænu byggðu bóli, enda fara menn með þetta sem feimnismál þó þetta þyki býsna góður árangur og merki um styrka stjórn hér heima. Það er ekkert í sambandi við innanhúsarkitektúrinn í þessari nýju ríkisstjórn sem bendir til þess að nokkur af þessum vandamálum verði leyst.

Við getum velt fyrir okkur vanda Sjálfstfl. Ég get ekki séð að þetta breyti neinu í sambandi við vanda Sjálfstfl. Hér hefur verið hrókerað, en það er alls ekki ljóst enn þá hver er kóngurinn og hver er hrókurinn. Er kóngnum skákað út í horn og er það hrókurinn sem er settur fram á vígvöllinn? Það er alls ekki ljóst hverjir hafa völd, hverjir ráða í þessum flokki. Það er út af fyrir sig skaðlegt í flokki sem er þetta stór og þykist fara með ábyrga stjórn í þessu landi.

Síðan má kannske spyrja hvort þetta leysi vanda einhverra ráðherra. Ég hef sagt áður að ég held raunar að það sé kannske það skásta sem gerist í þessu máli fyrir Sjálfstfl. Þetta leysir vandamál ákveðinna ráðh. Ég held t.d. að þetta leysi vandamál fyrrv. iðnrh. að því leyti að hann þarf ekki að standa lengur frammi fyrir kjósendum sínum út af kísilmálmverksmiðjumálinu. Þar var hann búinn að mála sig út í horn. En honum er bjargað á góðu bragði út úr því horni núna. Hins vegar lendir hæstv. fyrrv. iðnrh. í skrýtinni klípu þegar kemur að því að hann þarf að velta fyrir sér sem menntmrh. hvort hann eigi að höfða mál fyrir hönd Náttúruverndarráðs gegn iðnrn. vegna Mývatnsmálsins. Við munum kannske heyra nánar af því á næstunni. Þar leysist því kannske vandi, en skapast annar um leið.

Ég held líka að leystur hafi verið viss vandi fyrir hæstv. fyrrv. menntmrh. Ragnhildi Helgadóttur sem var búin að fá heila stétt manna upp á móti sér og þá stétt sem síst á að verða á öndverðum meiði við ráðamenn, þ.e. kennarastéttina. Hæstv. menntmrh. var búinn að fá kennarastéttina og skólamenn yfirleitt upp á móti sér og þar horfði alls ekki þannig að hægt væri að taka á þeim nauðsynlegu breytingum í skólamálum sem verður að gera hér á landi. Þar held ég því að viss vandi hafi verið leystur.

Eftir stendur kannske sú óvænta niðurstaða að sterkasti maðurinn í hæstv. ríkisstj. er hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason. Hann hefur staðið af sér allar þessar breytingar. Hann hefur staðið af sér niðurskurð í vegamálum og hann hefur staðið af sér hrókeringar í ráðherraliðinu. Það er kannske vísbending um af hvaða tagi vandamál Sjálfstfl., eins og þau gerast í þingflokksherbergi hans, eru.

Ég þarf ekki að hafa ræðu mína lengri. Ég tel að hvað þessa þjóð varðar skipti þetta engu máli. Hér er uppi árlegur farsi þar sem reynt er að láta líta svo út að menn séu að stjórna einhverju og þeim mun lengri sem þessi umræða er þeim mun meiri blekking er þetta gagnvart þjóðinni. Ég fullyrði að þetta skiptir ekki nokkru máli. Þetta minnir einna helst á veisluhöld amerískra auðkýfinga sem halda stórar veislur þegar dætur þeirra verða gjafvaxta og kynna þær fyrir umheiminum og segja: Hér er hún. Hafi nú hver sem vill. - Það á eftir að koma í ljós hver er gjafvaxta í þessari ráðherrahrókeringu og hverjum þetta verður til góðs.