18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

266. mál, stálbræðsla

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svar hans þótt ekki geti ég nú sagt að ég sé ánægður með svarið eða telji það fullnægjandi.

Ég held að það geti ekki dulist neinum að viðhorf stjórnvalda til uppbyggingar þessa fyrirtækis og undirtektir við þau áform, sem uppi voru fyrir tveimur árum síðan, voru allt aðrar og miklu jákvæðari en þær virðast vera nú. Ég gerði grein fyrir undirtektum iðnrh. þegar málið var rætt við hann haustið 1983 og ég hygg að það hafi nú einmitt verið í ljósi mjög jákvæðra undirtekta ráðherrans, sem m.a. komu skýrlega fram í blaðaviðtölum á þeim tíma og þarf ekkert að velta neitt vöngum yfir að voru fyrir hendi, að framkvæmdir voru hafnar á vegum félagsins um áramótin 1983-1984. Það var gerður samstarfssamningur við sænskan aðila, Halmstad Järnverk, sem einnig gerðist þar með hluthafi í félaginu. Og til þess að hefja framleiðslu söluhæfrar vöru var þá ákveðið að reisa fyrst völsunarhluta verksmiðjunnar en bræðsluhlutann í beinu framhaldi þess.

Það var sem sagt hafist handa, gerður samningur um kaup á lóð, byggingarframkvæmdir hafnar, reist þjónustuhús, sprengivinna unnin við grunn verksmiðjuhússins og starfsmenn reyndar sendir út til þjálfunar erlendis og hafin hönnunarvinna. Allt var þetta auðvitað gert á þeim grundvelli að það virtist aðeins vera tímaspursmál hvenær endanlega væri frá þessu máli gengið af hálfu stjórnvalda og undirtektir á þann veg að ekki var að efast um að stuðningur fengist.

En síðan hefur þetta allt breyst mjög og færst til verri vegar og það ber að harma. Ég álít að þetta fyrirtæki sé nauðsynjafyrirtæki, það sé þjóðþrifafyrirtæki og allar líkur bendi til þess að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að reisa það og reka hér á landi. En því miður: Málið er nú strand. Og mér sýnist að meðferð stjórnvalda á þessu máli sé svona heldur ófagur minnisvarði um lítið frumkvæði og litla forustu núv. ríkisstj. í atvinnumálum. Það hefur ekkert meðalstórt iðnaðarfyrirtæki risið hér á landi í tíð þessarar stjórnar, að frumkvæði hennar og undir forustu hennar.

Ég harma það mjög að ríkisstj. hefur verið svo neikvæð í þessu máli sem raun ber vitni og skora mjög eindregið á hana að endurskoða afstöðu sína til þessa félags.