18.02.1986
Sameinað þing: 48. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2607 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

266. mál, stálbræðsla

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess, til að menn skilji í hvaða aðstöðu framkvæmdarvaldið er, að lesa hér upp ákvæði til brb. sem fylgja lögunum um stálbræðslu. Með leyfi forseta hljóðar það þannig:

„Ekki er ríkisstjórninni heimilt að gerast eignaraðili að hlutafélaginu skv. 1. gr. né leggja fram fé ríkissjóðs sem hlutafé skv. 1. tölul. 2. gr., né veita ríkisábyrgð eða taka lán skv. 2. tölul. 2. gr. fyrr en tryggð hafa verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% hlutafjár, enda sé tryggður rekstrargrundvöllur fyrirtækisins með afurðaverði sem er sambærilegt heimsmarkaðsverði að áliti viðskrn.“

Síðan, með leyfi forseta, vil ég taka það fram, sem ég er reyndar búinn að gera, að ég var jákvæður um tíma, eins og kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, og er það enn þá. Loforð mín sem fjmrh. stóðust. Loforð sem iðnrh. hef ég engin gefið. En, með leyfi hæstv. forseta, efndin á loforðum mínum voru lög sem ég vitnaði til hér áðan, nr. 82 frá 1. júlí 1985, lög um sjálfskuldarábyrgð ríkisins af lánum vegna byggingar stálvölsunarverksmiðju. Þar segir í 1. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt, gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar, að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að fjárhæð allt að 1,55 millj. bandaríkjadala, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt, sem tekin eru til byggingar stálvölsunarverksmiðju í Vatnsleysustrandarhreppi. Auk skilyrða laga nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir, verði þess gætt að hlutafé fyrirtækisins sé a.m.k. 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar, að samningar séu fyrir hendi við banka er tryggi rekstrarfé til fyrirtækisins og að gætt verði náttúruverndarsjónarmiða.“

Ég get ekki með nokkru móti ímyndað mér að Alþingi - eftir allar þær umræður sem hér hafa farið fram um pólitísk afskipti af þessu fyrirtækinu og hinu og einkaaðilum í bankakerfinu, og m.a.s. með því að tala um að útiloka Alþingi frá því að kjósa úr sínum röðum í bankaráð - að Alþingi skuli ætlast til þess að ríkisstjórnin sjálf fari þá að tryggja bankaviðskipti fyrir einn eða annan.