29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

51. mál, Sjóefnavinnslan á Reykjanesi

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Lítill vandi er að spyrja þannig að svör séu tæplega til eða erfitt sé um vik að afla þeirra nema með mikilli aukavinnu og tilkostnaði. Á miðju ári er afskaplega erfitt að segja til um með nokkurri vissu hvernig eitt fyrirtæki kemur út í enda árs og að gera fyrirtæki upp, sérstaklega fyrirtæki sem er afbrigðilegt að því leytinu til að það er rannsóknafyrirtæki, ef við vildum kalla það bæði rannsóknastofnun og fyrirtæki, og tilgreina hvað fer í súginn og hvað fer ekki í súginn.

Ég held að hvar sem er, á hvaða vísindastofnun, á hvaða rannsóknasviði sem er fari oft 100% af því sem lagt er í rannsóknirnar í súginn, oft minni prósenta, en stundum gefa þær hagnað; oftast nær, vonandi, gefa þær hagnað. Hér er um að ræða eina rannsóknaverkefnið í gangi á sviði efnaiðnaðar á Íslandi þannig að ég held að við verðum að vera svolítið mildari í hugsun og orðum en hv. fyrirspyrjandi.

Reksturinn skilar ekki árangri. Reksturinn skilar árangri þó að hann skili ekki ágóða. Við höfum gert það sem við ætluðum að gera. Við höfum framleitt salt. Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að hægt er að framleiða önnur efni. Við eigum eftir að komast að niðurstöðu um hvort þessi tilraun okkar ber þann árangur að hún gefi tekjur í framtíðinni. En það kostar talsvert að komast að þeirri niðurstöðu.

Framleiðslan er sem sagt á tilraunastigi og heldur áfram að vera á tilraunastigi í einhvern tíma enn þá. Það er rétt að sú viðbótarframleiðsla sem nú er áformuð, kolsýran, kemur til með að styrkja rekstur tilraunanna. Vel getur verið að innan tíðar, vonandi ekki innan langs tíma, komi til ný framleiðsla, önnur efni, sem við höfum í huga þegar við fjöllum um þetta fyrirtæki eða þessa tilraunastofnun sem við köllum Sjóefnavinnsluna á Reykjanesi. En það er ekki rétt að engar áætlanir séu til. Þær hafa verið til frá upphafi og hv. fyrirspyrjanda er vel kunnugt um það.

Ég tek undir það að hættulegt er að byggja upp, hvort sem það er þessi starfsemi eða fyrirtæki sem við vitum fyrir fram að gefur rekstrarlega vel af sér, á lántökum eingöngu. Það höfum við frá einkarekstri. Það höfum við líka frá ríkisrekstrinum, og það er eiginlega fast umræðuefni á Alþingi vegna þeirra miklu lána sem við höfum tekið til að reka þjóðfélagið á þann hátt sem við höfum gert með samþykki og niðurstöðum Alþingis að rannsökuðu máli í langan tíma, ekki bara í tíð þessarar ríkisstj. heldur í gegnum áratug eða meira.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi svarað fsp. fyrirspyrjanda.