18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (2214)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp vegna þessarar beiðni, en það stafar ekki af því að ég hafi neitt á móti að umræða þessi fari fram. Síður en svo. Ég álít að hér sé um mjög þýðingarmikið umræðuefni að ræða sem eigi að taka sem fyrst til umræðu. En ég vek á því athygli að við þm. Alþb. höfum á þskj. 500 borið fram fsp. um nákvæmlega þetta sama mál og það meira að segja mjög ítarlega fsp. með ósk um svar í skýrsluformi. Við höfum óskað eftir því að ráðherra gefi þinginu á þinglegan hátt skýrslu um þetta mál í heild. Ég hlýt því að spyrja að því hvort hæstv. forseta finnist eðlilegt að rétt áður en fsp. þessari er svarað, væntanlega fáeinum dögum áður, og áður en allar upplýsingar liggja fyrir á grundvelli þeirrar fsp. sé málið tekið hér á dagskrá og það meira að segja af stjórnarþm. sem sennilega ber býsna mikla ábyrgð á því hvernig komið er.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. forseta hvort það sé með öllu eðlilegt að mál sem fyrir liggur beiðni um skýrslu um sé tekið með forgangshraða fyrir til umræðu.

Í öðru lagi vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh. hvenær von sé á svörum við beiðni um skýrslu því að ég álít að þegar það svar liggur fyrir sé fyrst raunhæfur möguleiki á því að taka þetta mál til þeirrar rækilegu umræðu sem þörf er á.