18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (2215)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það skal tekið fram að oft kann að vera álitamál hvort forseti á að leyfa utandagskrárumræðu eða ekki. En það hvort hann leyfir utandagskrárumræðu eða ekki fer ekkert eftir því hvort stjórnarþm. biður um utandagskrárumræðu eða stjórnarandstæðingur. Það er allt annað sem ræður úrslitum um það hvort utandagskrárumræða er heimiluð.

Ástæðan fyrir því að utandagskrárumræður hafa tíðkast og ástæðan fyrir því að bein ákvæði eru nú um utandagskrárumræður í þingsköpum er sú að rétt þykir að þm. geti vafningalaust komið með þýðingarmikið mál inn í þingið án þess að þurfa að fara venjulegar leiðir sem taka langan tíma. En til þess að réttlætanlegt sé að beita þessu ákvæði verður að meta svo að það sé eðlileg ástæða fyrir því að málið þurfi að koma vafningalaust til umræðu á þinginu.

Í þessu tilviki lítur forseti svo á að þetta mál sé þess eðlis og því hefur forseti leyft þessa umræðu. Það breytir engu þó að fyrir liggi beiðni um ítarlega skýrslu um mál sem varðar sama efni. Það tekur venjulega nokkurn tíma að fá slíka skýrslu og þá verða venjulega ítarlegar umræður um málið og engar hömlur eða takmarkanir á umræðum. Þegar beitt er 1. mgr. 32. gr. þingskapa um utandagskrárumræður geta ekki ítarlegar umræður farið fram. Og það er ekki gert ráð fyrir að þær fari fram. Það er aðeins gert ráð fyrir því að í örstuttu máli sé vakin athygli á því sem menn óska að leggja áherslu á og menn geti tjáð sig um það í jafnstuttu máli.

Það eru þessi sjónarmið sem liggja til grundvallar því að það hefur verið leyfð þessi utandagskrárumræða. Það skal tekið fram, sem sagt var í upphafi, að auðvitað kann það oft að orka tvímælis hvort á að heimila utandagskrárumræður eða ekki, en þær eru heimilaðar nú.