29.10.1985
Sameinað þing: 8. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

48. mál, fræðsla varðandi kynlíf og barneignir

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Þegar þáv. heilbrrh. Matthías Bjarnason svaraði fsp. minni í nóv. 1983 um framkvæmd I. kafla laga nr. 25 frá 1975 minntist hann á samstarfsnefnd landlæknisembættisins og menntmrh. um kynfræðslumál og gat þess að þeirri nefnd hefði verið falið að gera nánari tillögur um þau mál og m.a. ræða við sjónvarpið um gerð fræðsluþátta. Um framhald þessa máls er spurt í 1. lið fsp. á þskj. 48. Að hinu sama beinast aðrir liðir fsp. minnar. Þeir eru fram settir til að leita eftir hvort einhver hreyfing sé á þessum málum, en það er mín skoðun og margra annarra að með stóraukinni fræðslustarfsemi mætti koma í veg fyrir umtalsverðan fjölda ótímabærra þungana og þar með fóstureyðinga og barnsfæðinga, sérstaklega hjá kornungum stúlkum. Fsp. hljóðar svo:

„1. Hvað líður störfum samstarfsnefndar landlæknisembættis og menntmrn. um kynfræðslu?

2. Er von á einhverjum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda til framkvæmdar 1. kafla laga nr. 25 frá 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir?

3. Eru áform um að láta sjúkrasamlög greiða hluta af kostnaði vegna getnaðarvarna?

4. Hvernig var varið þeim 445 þús. kr. sem veitt var á fjárlögum ársins 1984 vegna laga nr. 25/1975? Og hvernig hefur verið varið þeim 542 þús. kr. sem veitt var á fjárlögum ársins 1985 til sama liðar?"

Því má bæta við hér að á frv. til fjárlaga fyrir næsta ár eru ætlaðar 658 þús. kr. til þess liðar sem kallaður er kostnaður vegna laga nr. 25/1975.