18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég minnist þess ekki að í ákvæðum um þingsköp séu nein fyrirmæli um að forseti eigi að lesa það í gegnum gleraugu þingflokksformanna hvernig túlka beri þingsköp. Það er nú einu sinni svo að það var mjög ákveðin ábending frá ágætu skáldi íslensku, Þorsteini Erlingssyni, að menn skyldu ekki lesa í gegnum annarra gler. Ég mælist til þess að forseti túlki þingsköpin eins og hann telur réttast og gæti jafnræðis á milli þm. í þeim efnum því að það fer ekki milli mála að það er grunnatriðið að þm. standi jafnt, ekki stjórnarandstæðingar eða stjórnarþm. í þessu sambandi.

Því miður get ég ekki að því gert að mér fannst það koma fram í framhjáhlaupinu hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að þar sem hv. 3. þm. Suðurl. bæri vissa ábyrgð á þeim lögum sem eru í gildi væri óeðlilegt að hann hefði forréttindaaðstöðu til að ræða þau mál á undan þeirri skýrslu sem Alþb. hefði óskað eftir. Nú er það svo að í ágætu kvæði stendur:

Ein réttlætisstund er bjartari og betri

en bænrækni stöðug í 30 ár.

Svo stendur í Múhameðs máttugu letri,

svo mælti spámannsins andi hár.

Ef einhver hefur iðrast gagnvart lagasetningu er það náttúrlega mjög jákvætt. En ég vænti þess að það beri að túlka afstöðu forseta á þann hátt að hann telji að þó að komin sé fram beiðni um skýrslu geti verið réttlætanlegt að taka mál á dagskrá og ég tek undir það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þetta er það rúm túlkun að hún hlýtur að skoðast í framtíðinni í því ljósi að það sé réttlætanlegt að taka mál á dagskrá í utandagskrárumræðum þó að það liggi fyrir í þinginu. Það finnst mér vera sú niðurstaða sem hér kemur fram, en ég mótmæli því að það eigi að skoða þingsköpin í gegnum gleraugu formanna stjórnmálaflokkanna eða þingflokkanna í þinginu. Það á forseti að gera einn.