18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2612 í B-deild Alþingistíðinda. (2224)

Um þingsköp

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Mér sýnist að það gæti töluverðs tvískinnungs í þessari umræðu. Hér er um það að ræða að hv. 3. þm. Suðurl. nýtir sér þann rétt, sem þm. hafa, að óska eftir hálftíma umræðu um mál, sem er mjög ofarlega á baugi að ekki sé meira sagt, skv. 32. gr. þingskapa. Þegar fram hefur verið lögð fyrir fáum dögum beiðni um skýrslu um þetta sama mál, þó auðvitað miklu yfirgripsmeira og víðara, er gerð athugasemd um að þetta mál sé tekið fyrir utan dagskrár. Ljóst er af þskj. 500 að sú skýrslugerð sem þar er um beðið hlýtur að taka langan tíma. Þar eru níu atriði upp talin. Það er mikið verk að vinna slíka skýrslu. Þar sér hver maður sem les þessa beiðni. Ber þá að skilja þetta svo, að með því að leggja fram slíka skýrslubeiðni sé hægt að koma í veg fyrir að mál sé rætt skv. 1. mgr. 32. gr. þingskapa? Það var raunar að skilja að sumu leyti á hv. málshefjanda, 3. þm. Norðurl. v. (SvG: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er ekki útúrsnúningur, hv. þm. Svavar Gestsson. Ég held að skilningur forseta á þessu sé alveg hárréttur. Þess vegna skil ég ekki og mér finnst gæta tvískinnungs í því að gerð er athugasemd við að þessi umræða skuli fara hér fram, sem þm. eiga rétt á að óska eftir í hálfa klukkustund, enda þótt beiðni um skýrslu sé komin fram. Ef vísað væri til þess að þetta mál væri þegar orðið þingmál, eins og er á þskj. 500, væri með því verið að útiloka þm. frá því að neyta þessa réttar. Það væri auðvitað rangt og andstætt anda þingskapa.