18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2613 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Ég vænti nú að við getum lokið þessum gagnmerku umræðum um þingsköp. En til þess að liggja ekki undir ámæli fyrir að skilja ekki sjálfur hvað ég á við þegar ég tala um „vafningalaust“ skal það tekið fram að ég tel það vafningalausa meðferð þegar mál er tekið fyrir í utandagskrárumræðum. Það á ekki að vera neinn ágreiningur um hvað er vafningalaust í þessum skilningi eða ekki.

Hins vegar er ekkert óeðlilegt við að mönnum geti sýnst sitt á hvað um hvaða mál eiga að hlíta vafningalausri meðferð. Það sjónarmið skil ég. Það hefur verið ítrekað sagt af mér að oft getur verið vafamál hvað á að gera í þessu efni. En ég treysti því að hér eftir sem hingað til sameinist þingheimur um að framkvæma hin nýju þingsköp um utandagskrárumræður í þeim anda sem okkur hefur tekist að framkvæma þau á þessu þingi.