18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ekki ætla ég að fara að skipta mér mjög af deilum hv. stjórnarsinna um þetta mál eða undarlegar aðgerðir hæstv. landbrh. á síðustu dögum gagnvart bændastéttinni.

Ég velti því fyrir mér þegar ég heyrði að hér yrði utandagskrárumræða um búmark hvaða stjórnarandstæðingur ætlaði nú að snúa hnífnum í sárinu eftir bændafundinn á Suðurlandi, hver ætlaði nú að nýta sér það. Það kom þá í ljós að þetta var framhald af atlögunni í Morgunblaðinu, sem hefur verið að undanförnu gegn hæstv. landbrh., hjá hv. 3. þm. Suðurl. og gert allt í því augnamiði að reyna að snúa ábyrgðinni frá sjálfstæðismönnum með öllu af þessum undarlegheitum sem þeir auðvitað bera sameiginlega ábyrgð á báðir stjórnarflokkarnir. Ábyrgðin á framleiðsluráðslögunum og þeim látum sem í kringum þau voru í fyrra fer auðvitað ekki milli mála. Hún er beggja. Afleiðingin er að koma í ljós núna og þá rjúka þeir sjálfstæðismenn upp til handa og fóta og eru alveg hissa. Það mega þó framsóknarmenn eiga að þeir hafa sjálfsagt séð fyrir að svona færi fyrir bændum. Þar af leiðandi eru þeir ekkert hissa.

Nei, þeirra er mátturinn og dýrðin, enda sögðu þeir í fyrra að það lægi á, það þyrfti að koma þessum framleiðsluráðslögum í gegn sem allra fyrst. Hvers vegna? Hvað sagði hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson í Morgunblaðinu? Hann er ekki staddur hér, því miður. Hann sagði að það væri gert til að hætta vitleysunni í landbúnaðinum. Það yrði að drífa þessi lög í gegn til að hætta vitleysunni í landbúnaðinum. Það var DV-tónninn frægi sem þar var á ferðinni. Og bændahöfðingjarnir í Sjálfstfl. flýttu sér til og afgreiddu þessi lög ásamt framsóknarmönnum til þess að hægt væri að „hætta vitleysunni í landbúnaðinum“.

Aðlögun gagnvart þessum lögum er vitanlega engin. Á þetta bentum við margsinnis í fyrra. Á það var ekki hlustað. Menn vildu ana áfram í þetta beint án þess að hugsa um afleiðingarnar.

Vitanlega er hér um að ræða bæði afleiðingu af þessum lögum og reyndar af þeirri stjórnarstefnu í heild sem fer þannig með bændur. Kjaraskerðingin í landinu, kjaraskerðing fólksins í landinu hefur auðvitað ekki hvað síst komið við bændur. Það vita allir. Kjaraskerðingin kemur við þá á tvöfaldan máta, bæði gagnvart þeim sem launþegum í raun og hins vegar gagnvart þeim kaupmætti sem fólk hefur til að kaupa fyrir þær vörur sem bændur selja. Og það verður gaman að fara ofan í niðurgreiðslurnar einhvern tíma síðar, hvernig þær hafa hríðlækkað í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Ég held að hv. 3. þm. Suðurl. ætti að snúa sér að hæstv. fjmrh., sem ber þar höfuðábyrgð, og spyrja hann hvers vegna í ósköpunum þessar vöru eru nú svo miklu dýrari af þeim ástæðum.

Ég ætla ekki að fara að verja þessar aðgerðir, þær eru með öllu óverjandi, enda ekki til þess tími nú, það gefst tækifæri til þess síðar, en það er með afbrigðum segi ég þegar sá flokkur sem ber jafnmikla ábyrgð á þessum lögum og Sjálfstfl. gerir, fer að gera athugasemdir við beinar afleiðingar þessara laga.