18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2621 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hygg að það sem fyrst og fremst megi að þeim lögum finna, sem sett voru í fyrra, er að þau voru sett þremur árum of seint. Og það vil ég taka undir, sem kom frá hv. 1. þm. Norðurl. v., að það hefði verið ólíkt auðveldara að taka á þessum málum ef það hefði verið gert. Hitt er alveg vonlaust að gera ráð fyrir því að nokkur þjóð geti hagað sér í landbúnaðarframleiðslu á þann veg að ekki sé samræmi á milli framleiðslunnar og þeirra sölumöguleika sem eru á vörunni. Því verða menn að gera sér grein fyrir jafnvel þó að þeir séu Alþýðubandalagsmenn.

Hitt vil ég undirstrika að mér þykir það dálítið skrýtið að þegar heyrast raddir - þótt þær komi frá Sjálfstfl. - um auknar niðurgreiðslur skuli það vera sérstakt árásarefni á viðkomandi aðila af því að þeir hafi tekið undir eitthvað sem Alþb. hefur talað um í þeim efnum. Menn verða hikandi við að taka undir jákvæðar tillögur þegar þær koma frá Alþb. ef það er pottþétt mál að það þýðir hörkuskammir héðan úr ræðustólnum.

Ég vil vekja á því athygli aftur á móti að tveir af þremur hv. þm. sem Sjálfstfl. á á Suðurlandi virðast hafa tekið þá stefnu, sem ég fagna, að eini möguleikinn til að tryggja meiri aðlögun að núverandi kvótakerfi er að auka niðurgreiðslurnar. Það er eini möguleikinn til að auka aðlögunina. Ég vænti þess að þeir veiti þeim eina, sem eftir er úr sínum hópi, þá aðför að það dugi, því að vilji menn tala um þessi mál í alvöru hlýtur það að vera grundvallaratriði hvort hægt er með einhverjum aðgerðum að tryggja að meira samræmi verði á milli framleiðslunnar og neyslunnar. Í stöðunni í dag er það eitt hægt að gera að auka niðurgreiðslurnar ef mönnum finnst aðlögunartíminn vera of knappur.