18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2624 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég verð að játa að mér finnst þessar umræður á margan hátt hafa verið broslegar. Menn firra sig ábyrgð á þeim lögum sem sett voru í fyrra um þessi efni og rífast hver í kapp við annan um mál sem hefði átt að vera búið að framkvæma fyrir löngu síðan. Ég minni á að það eru upp undir 20 ár síðan Alþfl. byrjaði að boða þá stefnu að það þyrfti að draga saman í framleiðslu landbúnaðarafurða og það yrði að vera jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar. Á þetta hefur ekki verið hlustað og þess vegna eru menn komnir í þetta óefni sem er í dag.

Það er alveg ljóst að bændur eiga við mikla erfiðleika að stríða og meðal margra bænda er fátækt. Hér skamma menn landbrh. fyrir að framkvæma þau lög sem menn samþykktu hér á síðasta þingi, lög sem menn áttu að vita hvað þýddu. Reyndar má segja að það hafi verið afskaplega illa að því staðið hversu seint búmarkið var tilkynnt. En ég bið menn að leiða hugann að því að það er ekki aðeins þetta vandamál sem lýtur að bændastéttinni nú á næstu mánuðum eða árum, heldur líka það að það er markvisst stefnt að því að venja fólk af því að éta landbúnaðarvörur.

Kindakjöt, mjólk og mjólkurafurðir eru það dýrar að venjulegt fólk kýs að kaupa annað. Smjör hreyfist varla í verslunum, fólk kaupir Sólblóma frekar en smjör. Fólk kaupir kjúklinga og svínakjöt frekar en kindakjöt vegna þess að þessar landbúnaðarvörur eru svo dýrar. Ég hygg að ef svo heldur áfram sem verið hefur megi bændur eiga von á miklu verri tíð en ella vegna þess að allur almenningur, launþegar í landinu, mun kjósa sér aðrar afurðir ef verðlag verður svo hátt sem raun ber vitni.

Nú þegar menn standa í kjarasamningum og óska eftir því að gera kjarasamninga á lágum nótum þar sem verðbólga yrði færð niður hafa aðilar óskað eftir því að þessi mál yrðu skoðuð. Mitt í þeirri umræðu vitum við það að um næstu mánaðamót mun landbúnaðarvöruverð hækka verulega en það mun verka eins og olía á eld. Ég tel að menn þurfi að gæta að þessu og ekki síst með tilliti til þess að bændur munu því miður gjalda þess ef fólk hættir að kaupa þær vörur sem þeir framleiða.