18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

Búmark í mjólkurframleiðslu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er greinilegur taugatitringur hér inni hjá hv. stjórnarliðum og ég skil það mætavel vegna þeirrar óánægju bænda sem nú blossar upp og þeir eru býsna hissa á í kjölfar þeirrar lagasetningar sem þeir stóðu að í fyrra. Hv. 1. þm. Vesturl. lýsti þeirri lagasetningu réttilega á þann veg að þar hefði ráðið mikil ýtni og verið varað við því að setja þessi lög í því flaustri sem þá var gert því að svo undrandi sem hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson var á minni ræðu, þá var ég ekki undrandi á hans ræðu. Hann sagði nefnilega að hann hefði ekki þorað annað þegar allt kom til alls en að standa með þessu þótt veigamikil atriði hefðu verið á allt annan veg en hann hefði kosið.

Svo kemur hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hér upp og segir að jafnvel Alþýðubandalagsmenn eigi að skilja það að samræmi þurfi að vera milli framleiðslu og sölu. Ja, drottinn minn. Ég get sagt hv. þm. það að þegar við höfum haldið þessu fram á framboðsfundum eystra, þm. Alþb., nú um langt skeið að hér þyrfti að stjórna framleiðslunni á þann veg að þarna yrði samræmi á milli, þá höfum við verið ásakaðir fyrir hinar verstu aðgerðir í garð bænda, atlögu að bændum.

Ég man vel eftir því, af því að hv. 11. landsk. þm. á eftir að koma hér upp á eftir, að hann hefur tekið þátt í þeim leik að halda því fram að þarna værum við að ráðast að bændum með því að ganga þannig til verks.

Af því að ég minnist á hv. 11. landsk. þm. er rétt að minna hann á það, ef hann skyldi vera búinn að gleyma því, að hann var harðasti gagnrýnandi landbúnaðarstefnu hv. þm. Pálma Jónssonar þegar hann var ráðherra og sagði að ef hann fengi einhverju að ráða mundi ekki slík haftastefna verða sett á landbúnaðinn. Þá yrði allt frjálst og gott og rúmt um bændastéttina í landinu.