18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

243. mál, hagkvæmni útboða

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 472 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni, Skúla Alexanderssyni, Karvel Pálmasyni, Steingrími J. Sigfússyni og Davíð Aðalsteinssyni að flytja svohljóðandi till. til þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ítarlega könnun á hagkvæmni útboða og því hvort aðrar leiðir séu heppilegri og æskilegri fyrir byggðarlög og þjóðarheild. Sérstaklega verði athuguð áhrif útboða á byggðarþróun í landinu og samhliða heildarhagkvæmni þeirra verði litið til röskunar á rekstri ýmiss konar þjónustu á landsbyggðinni.

Settar verði nánari og skýrari reglur um útboð á vegum hins opinbera og framkvæmd þeirra á þann veg að smærri verktakar á einstökum svæðum og aðilar heima í héraði hafi sem besta möguleika á því að taka sér verkefni í nágrenni sínu. Jafnframt verði undirbúnar reglur sem koma í veg fyrir að einstakir aðilar geti einokað verktakastarfsemina.“

Till. þessi var flutt á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Ég veit ekki hvort ég fer að hafa langa framsögu um þetta mál nú, ég hafði hana í fyrra býsna langa og studdi ýmis atriði þess gildum rökum. Við flm. töldum þá rétt að láta reyna á hina ýmsu þætti í þessum málum því að ekki er allt sem sýnist, ekki eru allar þær tölur, sem upp eru gefnar í upphafi, nú þær endanlegu og væri freistandi að fara yfir eitthvað af þessum atriðum.

Ég bendi á það t.d. í grg. - og við flutningsmenn höfum ítrekað það - að forráðamenn Verktakasambandsins hafa rætt sín vandamál varðandi undirboðin og afleiðingar þeirra fyrir hina smærri verktaka. Þeir hafa séð sér þá eina leið færa að bjóða svo lágt í verk að þeir hafa hreinlega farið á höfuðið og orðið að hætta stundum við hálfnað verk. Hins vegar hafa undirboð í smærri verk af hálfu hinna voldugustu verktaka ekki skaðað þá því að þetta hafa verið eins konar aukaverkefni sem þeir hafa séð sér unnt að vinna til hliðar við eða í hléum frá stórverkefnum.

En veigamesta ástæðan fyrir því að við endurflytjum þessa till. nú og viljum fá virkilega marktæka könnun á heildarhagkvæmni þessara útboða snertir landsbyggðina, þjónustuaðilana þar og möguleika þeirra í þessari samkeppni, eða spurninguna um það hvort eigi hreinlega að útiloka þá frá þessum markaði. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að hvert meðalstórt byggðarlag þarf á því að halda að þar séu vinnuvélaeigendur og vörubifreiðastjórar sem sinni ákveðinni þjónustu. Ef þessir aðilar missa gersamlega af möguleikunum á því að taka þátt í þessum verkum er hætt við að þeirra lífsafkoma sé í hættu.

Nú erum við flm. ekki að segja að við séum á móti útboðsstefnu almennt enda værum við þá ekki að fara fram á könnun á heildarhagkvæmni útboðanna. Við erum vissulega á því að það fari mjög vel á því að bjóða mörg hinna stærri verka út. Við erum heldur ekki að mæla með því að heimaaðilar geti einokað ákveðin verkefni. En ég held að það þurfi að huga að því að hjálpa þeim til að taka þátt í vegagerð, hafnagerð, flugvallagerð og þó kannske alveg sérstaklega vegagerðinni þar sem þessir aðilar fá þá viðspyrnu og þá viðbót sem dugar þeim svo til að sinna þjónustuhlutverkinu heima fyrir. Ef þeir missa möguleikana til þátttöku í þessum verkum eða jafnvel alla möguleika þá leggst starfsemi þeirra einfaldlega niður og við sjáum þess merki nú þegar að þetta er að gerast í æ ríkara mæli.

Það er nefnilega stórkostlegt atriði fyrir byggðarlögin og heimabyggðirnar að þessir þjónustuaðilar geti haldið áfram að starfa, hvort sem það eru vinnuvélaeigendur eða vörubifreiðastjórar, og að þeir fái til þess hjálp, aðstoð og möguleika og heldur ekki það að það sé verið að eltast við alla hluti varðandi útboð.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál. Ég bendi á það t.d. að kostnaður Vegagerðar ríkisins í kringum sum verkefni, sem boðin hafa verið út, er ærinn. Við hv. 4. þm. Austurl. þekkjum dæmi um það að austan að verk hefur verið boðið út og talað um að það væri þetta og þetta mikið fyrir neðan kostnaðaráætlun. Síðan hefur Vegagerð ríkisins lagt þessum sama verktaka til skúra, verkstjóra, verkfræðilegar og tæknilegar leiðbeiningar um allt verkið og aðstoðað hann á allan mögulegan hátt. Þegar þannig er komið sjáum við auðvitað ekki þá hagkvæmni sem var verið að tala um í upphaflegu tölunni.

Ég nefni það líka bara sem sláandi dæmi um það að fylgja þessari útboðsstefnu jafnblint og okkur þykir gert að Vegagerð ríkisins á Austurlandi seldi sín mölunartæki og taldi sig geta fengið þessi verk unnin miklu ódýrara af verktökum. Það hafði líka reynst svo, verktakar höfðu boðið í þessa mölun mun ódýrara og lægra. Sannleikurinn var bara sá að um leið og Vegagerð ríkisins var búin að selja sín tæki og fór svo að bjóða út mölun kom bara tilboð upp á 115%. Það var engin samkeppni og þessir aðilar vissu að þeim var óhætt að fara þetta langt því að Vegagerðin gat ekki mætt því á annan hátt en að taka þeirra tilboði þó að hátt væri.

Erfitt er að segja fyrir um framkvæmd og setningu reglna um þetta allt saman. Vörubifreiðastjórar eystra hafa t.d. viljað fara út í svæðaskiptingu. Ég veit ekki hversu raunhæft það er, það eru ekki allir sáttir við þá hugmynd. En ég held að aðstoð við smærri verktaka og heimaaðila alveg sérstaklega komi til greina. Síðast en ekki síst þarf að huga að því hvaða verk eigi að bjóða út og hver hin þjóðfélagslega hagkvæmni fyrir heildina verður svo þegar upp er staðið.

Við birtum með grg. með þessari till. okkar í fyrra ályktun frá vörubifreiðastjórafélaginu Snæfelli á Austurlandi. Þar var að vísu nokkuð harkalega til orða tekið og ég dreg ekkert úr því. Ég ætla ekki að fara að vísa mikið í það. En það má segja að mikil sé hógværð okkar flm. í þessari grg. okkar og tillögugerðinni miðað við áherslur þær og ályktanir sem þessir hagsmunaaðilar gerðu og við vorum taldir vera að flytja, a.m.k. við hv. 4. þm. Austurl., inn á vettvang Alþingis. Því fór mjög fjarri þó að þar hafi líka komið fram beinar tillögur um það hvernig að þessum málum mætti standa og m.a. um ákveðnar millileiðir í þessu sambandi eins og við erum að tala hér um.

Ég vil svo geta þess að lokum að Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi hefur lýst yfir sérstökum, eindregnum stuðningi við þessa tillögu og bent á það að hlutlaus könnun allra þessara þátta hlyti að vera til góðs fyrir alla, verktakana líka. Svo mikið veit ég að stjórnarmenn þar, sem eru kunnugir sínum málum hver í sínu sveitarfélagi, hafa af því hinar mestu áhyggjur hversu öll þjónustustarfsemi á þessum stöðum á nú í mikilli þröng vegna útboðanna, vegna þess kannske að þeim hefur ekki tekist að laga sig að aðstæðum, ekki neita ég því, en fyrst og fremst vegna þess að þessi bylgja kemur svo skjótt yfir. Við vitum það vissulega, flm., að Alþingi hefur gengið þannig frá málum að það er ósköp eðlilegt að svona sé gengið til verks. Við viljum þá líka að Alþingi, sem ákvað þessa skipan, taki á sig rögg og samþykki að gera ítarlega heildarkönnun á hagkvæmni þessara útboða og hvort ekki sé heppilegra og æskilegra fyrir byggðarlög og þjóðarheild að fara í ýmsu aðrar leiðir.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því að þessari till. verði vísað til síðari umræðu og hv. atvmn.