18.02.1986
Sameinað þing: 49. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

243. mál, hagkvæmni útboða

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þarf í rauninni ekki að hafa langt mál um þessa till. sem hér liggur fyrir, það hefur verið talað fyrir henni bæði hér áðan af 1. flm. og á síðasta þingi. Málið er í rauninni einfalt, það er farið fram á könnun á hagkvæmni útboða. Ég vil leiðrétta það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að hér er í sjálfu sér ekki um að ræða neinn neikvæðan tón í garð útboða heldur viljum við fá réttar upplýsingar um hvernig þau koma út að lokum og að þar sé tekinn með allur kostnaður sem á hvert verk fellur.

Sum útboð, t.d. á Austurlandi, hafa komið vel út, önnur hafa tekist miður. Það hafa komið upp þar slæm dæmi um mistök í útboðum. Auðvitað viljum við fá sem lengsta og besta vegi. En við viljum samt eigi að síður að smærri verktakar í heimabyggð geti haldið áfram að veita þá nauðsynlegu þjónustu sem þeir hafa veitt hingað til. Það er ástæða til að geta þess að það er nauðsynlegt fyrir verktaka að þjappa sér saman um verkefni, læra til þess að bjóða í verk. En eigi að síður er þessi könnun nauðsynleg. Það getur vel verið að hún leiði það í ljós að útboðin séu besta tækið til að fá langa og góða vegi. En það ætti þá að hreinsa andrúmsloftið í umræðunni um þessi mál og vera öllum til góðs. Þess vegna vona ég að þessi till., sem hér er til umræðu, fái þinglega meðferð og dagi ekki uppi á þessu þingi eins og hinu síðasta.

Umr. (atkvgr.) frestað.