19.02.1986
Neðri deild: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2268)

238. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Í þessu frv. er lagt til að í siglingamálaráði verði fulltrúar allra þeirra samtaka sem í dag eiga aðild að rannsóknarnefnd sjóslysa, en þar eiga nú sæti fulltrúar frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands og Slysavarnafélagi Íslands. M.ö.o. bæði fulltrúar yfirmanna og undirmanna, fulltrúar útgerðar og Slysavarnafélags Íslands. Nefndin sem semur frv. telur sjálfgefið að þessir aðilar eigi aðild að ráðinu sem fulltrúar sjómanna almennt og fiskiskipaútgerðar. Enn fremur er lagt til að fulltrúar tvennra samtaka, sem ekki eiga nú aðild að rannsóknarnefnd sjóslysa, fái aðild að þessu ráði, en það eru Félag dráttarbrauta og skipasmiðja og Samband íslenskra kaupskipaútgerða. Starfsemi Siglingamálastofnunar snertir verulega hvor tveggja þessi samtök og þess vegna gerir sú nefnd sem þetta frv. samdi þetta að sinni tillögu.

Við skulum aðeins líta á hverjir áttu sæti í þessari nefnd. Það er ráðuneytisstjóri þess ráðuneytis sem fer með siglingamál; það er skólastjóri annars sjómannaskólans sem fer nú með menntamálin; það er forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands; það er formaður stærsta sjómannafélagsins og það er útgerðarmaður sem hefur unnið trúnaðarstörf fyrir Landssamband ísl. útvegsmanna. Allir þessir aðilar eru sammála um að leggja þetta til.

Þetta frv. felur í sér þá höfuðbreytingu að færa eftirlit með skipum, skrásetningu og eftirlit skipa, meira út á land en nú er gert. Það er verið að draga úr miðstýringunni. Í öðru lagi er verið með tilkomu þessa siglingamálaráðs að samræma meiri vinnu og meira starf. Færa það út. Starfsemi sjórannsóknar verður áfram þar. En auk þess boðaði ég breytingu á siglingalögunum með sérstakri skipan þessara mála. Í sambandi við rannsóknir flugslysa gildir ekki að hafa stofnanir eða þessa aðila nógu marga, heldur fyrst og fremst að hafa þá góða og að þeir starfi vel og skipulega að þessum málum svo að mér finnst gæta allmikillar íhaldssemi í málflutningi hv. 3. þm. Norðurl. e., og mér skildist að félagi hans úr sama kjördæmi, 4. þm. Norðurl. e., væri líka allíhaldssamur í þessum breytingum. Ég tel að gerðar hafi verið meiri breytingar en áratugum saman í öryggismálum sjómanna almennt. Með þessum breytingum er verið að gera þessar rannsóknir miklu meiri.

Rannsóknarnefnd sjóslysa er alls góðs makleg og hefur unnið margt ágætt starf, en ekki finnst mér það vera góð nýting á tíma að eiga fulltrúa inni í hverju einasta sjóprófi. Ég held að þau heyri eiginlega mörg hver til liðnum tíma. Ég þekki þetta líka af eigin reynslu. Ég var framkvæmdastjóri fyrir tryggingafélag í mörg ár. Ósköp fannst mér koma yfirleitt lítið út úr sjóprófum. Hins vegar vil ég fyrir mitt leyti, sérstaklega þegar slys verða, læra af mistökum sem verða, færa þessar rannsóknir inn á nýtt og betra svið í mjög góðri samvinnu við þá sem um þessi mál fjalla. Ég boðaði hér í minni framsöguræðu fyrir frv. aukna og betri samvinnu við öryggismálanefnd sjómanna sem í eiga sæti níu alþm. Ég vil gjarnan halda áfram því samstarfi sem komið hefur verið á en mér finnst ekki boða gott að segja að ekki megi breyta neinu sem fyrir er en bæta aðeins nýju við. Það sem aðallega vakir fyrir mér er að breyta ekki um breytinganna vegna, heldur breyta hér um til að koma fastari skipan og fastara formi á þessi mál.

Væntanlegt siglingaráð getur vel fjallað áfram sem hingað til - því að þetta eru sömu aðilarnir - um það sem er minna virði. En hitt sem ég boðaði var aftur um það þegar slys verða og þarfnast frekari rannsóknar og er hugmyndin að haga henni þá meira í ætt við það sem nú tíðkast í sambandi við rannsókn flugslysa.

Þegar á heildina er litið er þetta frv. mjög til góðs þegar því fylgir sú breyting sem ég boðaði. Sömuleiðis er hér verið að færa starfsemi meira út um land, auka starf og ábyrgð embættismanna úti á landi og draga úr miðstýringu höfuðstöðvanna hér syðra.

Ef horfið er frá því að siglingamálaráð eigi að fjalla um nokkrar rannsóknir á sjóslysum þá tel ég að starfsemi þessi sé varla þess virði að það eigi að vera inni í frv. Ég tel það mjög koma til athugunar þó að ég vilji ekki taka svo stórt upp í mig að ég vilji gjarnan að það falli niður. En ég tel það mjög koma til athugunar í sambandi við meðferð málsins hjá þeirri nefnd sem fær það hér í hv. þingdeild.

Umr. (atkvgr.) frestað.