20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2275)

133. mál, nefnd til að kanna okurlánastarfsemi

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér hefur verið mælt fyrir, fjallar um mál sem eðlilega hefur verið mikið á dagskrá í umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu og einnig hér á Alþingi. Ég geri mér ljóst að það er góður hugur á bak við flutning þessarar till. frá flm. og hefði ekkert á móti því að ofan í þessi mál verði farið af sérstakri rannsóknarnefnd.

En ég vil benda á að flutt hefur verið í Nd. þingsins sérstakt frv. til laga um stöðvun okurlánastarfsemi. Það er á þskj. 166, flutt af öllum þm. Alþb. í Nd. þingsins. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að öll skuldabréf skuli skráð á nafn og nafnnúmer. Handhafaskuldabréf, sem útgefin eru eftir gildistöku þeirra laga, skuli skráð á nafn á næsta gjalddaga. Skattstofum séu veittar upplýsingar um skuldabréf, kaupanda og seljanda. Leyfi þurfi fyrir starfrækslu verðbréfamiðlunar eða fasteignasölu og bankaeftirlitinu sé heimilt að rannsaka fjárhag og rekstur þeirra aðila sem leyfi hafa hlotið til verðbréfamiðlunar. Það er einnig gert ráð fyrir sérstökum reglum sem félmrn. setji um þessi mál og fjölmargt fleira er tekið fram í þessu frv. sem vísað var til fjh.- og viðskn. Nd. 4. des. s.l. og er þar sem sagt til meðferðar.

Þarna er tekið með ákvarðandi hætti á þessu máli og það verður að sjálfsögðu að líta á þessi mál í samhengi. Ef þetta frv. til laga, sem Alþýðubandalagsmenn hafa flutt í Nd., yrði lögfest væri tekið myndarlega á þessu máli af löggjafanum.

Þingið þarf að skoða þessi mál í samhengi, hvort rétt er og nauðsynlegt að setja sérstaka rannsóknarnefnd þm. til að kanna þessa starfsemi. Það má vel vera að það sé réttmætt og að full ástæða til þess. Ég hygg að, margt gæti komið þar fram sem gæti orðið að gagni við athugun þessara mála. Ég hef sem sagt ekkert á móti því en vildi vekja athygli á þessu frv. til laga sem er til meðferðar í fjh.- og viðskn. Nd.