20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

135. mál, jöfnun orkukostnaðar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 149 er till. til þál. um jöfnun orkukostnaðar sem Guðmundur Búason flutti, en hann sat á þingi fyrr í vetur sem varaþm.

Till. hljóðar um það að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta nú þegar gera tillögu sem miði að því að jafna orkukostnað landsmanna hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Í grg. kemur fram að mjög hafi verið hvatt til nýtingar innlendra orkugjafa og sú stefna hafi borið góðan árangur þar sem þeir eru nú að langmestu leyti notaðir til upphitunar húsa. Hins vegar hafi af ýmsum ástæðum farið svo að orkuverð sé nokkuð mismunandi hjá hinum ýmsu orkuveitum og þar sem um svo veigamikinn útgjaldalið hjá hverjum aðila er að ræða sem upphitunarkostnaðurinn er skapi það misjafna aðstöðu fyrir menn eftir því við hvaða aðstöðu þeir búa.

En ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. allshn. og síðari umræðu.