20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er mín skoðun að mjög vafasamt sé að sameina Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands nema allt háskólastigið sé tekið til endurskoðunar. Það er hægt að hugsa sér slíka tengingu á þann veg að Háskóli Íslands sé gerður að fullkomnari menntastofnun með alla rannsóknarmöguleika sem slíkur háskóli þarf í rauninni að hafa, en þá tel ég jafnsjálfsagt að starfsmenntastofnanir, eins og landbúnaðarskóli, kennaraskóli, listaskóli, fiskvinnsluskóli og tækniskóli svo að dæmi séu nefnd, væru sjálfstæðar verkmenntastofnanir þó að þær væru í tengslum við Háskóla Íslands. Það held ég að sé mun hyggilegra. Ég held að eins og staðan er sé beinlínis hættulegt að tala um að sameina Kennaraháskóla Íslands Háskólanum. Það er vonandi stefna sem verður ofan á að samtengja grunnmenntunina og verkmenntunina. Hæstv. menntmrh. hefur lýst það skoðun sína og vil ég taka undir það.

Ég nefni sem dæmi að ég held að það sé ekki sú aðstaða í Háskóla Íslands að verkmenntaþættirnir í Kennaraháskóla Íslands, kennsla í listum og verkmenntagreinum, kennsla í t.d. smíðum, hannyrðum, heimilisfræði, tónlist og íþróttum, fái notið sín í Háskóla Íslands eins og þær njóta sín innan sjálfstæðrar stofnunar, Kennaraháskóla Íslands. Þessar greinar tel ég vera að mörgu leyti lykilatriði í starfi Kennaraháskóla Íslands.

Það má segja að það hafi verið fremur dræmur skilningur á gildi sérmenntaðra starfsmanna á sviði uppeldis í landinu, þó það sé á réttri leið, en ég tel að Kennaraháskóli Íslands sé vörn fyrir kennaramenntunina og það þurfi að verja Kennaraháskóla Íslands gegn því að hann sé limaður í sundur. Þess vegna held ég að þetta sé ekki tímabær tillaga.