20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (2287)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Umræða um þetta efni er af hinu góða. Það er mjög nauðsynlegt að hafa vakandi auga með þróun mála og ekki síst í menntakerfi okkar. Fyrirrennari minn, hæstv. núv. heilbrrh., hafði áhuga á þessari sameiningu og setti á stofn starfshóp til að gera athugun á efninu.

Ég hef leitt hugann að málefnum Kennaraháskólans og er að hluta viðbúinn því að ræða þessa möguleika um sameiningu, en mig skortir enn öll rök fyrir henni. En prófessor við Háskólann, Þórólfur Þórlindsson, er að gera athugun á málefnum Kennaraháskólans fyrir mig þessa dagana og mun enda sækja sér aðstoð víðar að. Þar til hans álit liggur fyrir og í framhaldi af því frekari umræður og rannsóknir á viðfangsefninu get ég ekki tekið undir og er heldur ekki viðbúinn af skiljanlegum ástæðum til að hafa uppi neinar áætlanir eða áform um breytingu á þessu kerfi í þá átt sem hér er lagt til.

Ég kann heldur ekkert að meta að svo komnu hvort hér er um einhverja hagræðingu í rekstri að tefla sem getur orðið fjárhagsatriði sem um munar. Ég dreg það stórlega í efa og læt mér ekki ótt um slík áform því að í þessum efnum gengur ýmislegt fyrir því að velta fyrir sér hinum ýtrustu sparnaðarráðstöfunum. Ég held að ýmislegt fleira verði að koma til álita á undan, áður en menn hyggja á frekari áform en orðið er og uppi eru höfð á hinu háa Alþingi um niðurskurð og samdrátt í mennta- og menningarkerfi þjóðarinnar.