20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2685 í B-deild Alþingistíðinda. (2291)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem spunnist hafa hér í tilefni af þessum tillöguflutningi. Það virðist ekki hafa komið nægilega skýrt fram í mínu máli, þótt skilmerkilega sé tekið fram í grg., að það sem flm. gengur til er alls ekki fyrst og fremst fjárhagslegur sparnaður eða betri nýting fjármuna vegna þess að það er ekki aðalatriði þessa máls. Ég hygg að það sé hægt að benda á marga staði í ríkiskerfinu, reyndar líka í skólakerfinu, þar sem hægt væri að nýta betur fjármuni en mundi hljótast af framkvæmd þessarar till., það er alls ekki aðalatriðið þótt sá ávinningur kunni að verða nokkur.

Aðalatriði málsins er þetta: Ákvörðunin, sem tekin var með löggjöf 1971, um að færa alla kennaramenntun á háskólastig og stofna sérstakan Kennaraháskóla, reyndar gera þann framhaldsskóla sem þá var að háskóla, var gerð með fyrirvara um að þessi löggjöf skyldi hlíta einhvers konar sólarlagsákvæði, verða endurskoðuð í ljósi reynslunnar að tveimur árum liðnum, eða árið 1973. Síðan er liðið talsvert á annan áratug og þessi endurskoðun hefur ekki farið fram og verður nú ekki beinlínis kennt við óðagot frekar en annað í endurskoðun á skólakerfi. Ef þessi till. getur því orðið liður í slíkri endurskoðun, sem er löngu tímabær, þá er það gott. Og auðvitað fagna ég því að hæstv. ráðh. telur ástæðu til að beita sér fyrir með bestu manna yfirsýn einni allsherjar endurskoðun á íslensku skólakerfi. Þar kemur náttúrlega margt til álita.

Í fyrsta lagi spurningin sem hann sjálfur reifaði: Er eðlilegt miðað við þær stökkbreytingar sem orðið hafa á þessu þjóðfélagi að viðhalda áfram níu ára skólaskyldu? Eða væri rétt, eins og ráðherrann lýsti að hann væri fylgjandi, að draga úr skólaskyldu þótt fræðsluskyldu væri haldið? Ég tek undir það, ég held að þá hugmynd mætti gjarnan taka til skoðunar.

Ef við erum að tala um fjárhagslegan sparnað í skólakerfi mundum við vafalaust geta beint sjónum frekar að öðru. Ég nefni sem dæmi: Sá merki pólitíski hugsuður og skólafrömuður Jónas Jónsson frá Hriflu, frumkvöðull héraðsskóla sem hann setti á stofn víða um land miðað við þjóðfélag á kreppuárum, mundi hugsanlega nú ekki telja það óðagot þótt það væri endurskoðað hvaða hlutverk við eigum að finna héraðsskólum. Við getum nefnt nokkra héraðsskóla þar sem svo er komið að aðsókn að þeim er nærri því engin. Þeir hljóta að gegna allt öðru hlutverki nú, þeir eru ekki þær burðarstoðir sinna héraða sem þeir voru áður.

Við getum nefnt sérhæfða skóla eins og húsmæðraskóla. Húsmæðrafræðsla eða hússtjórnun og matreiðslufræði eru komin inn í marga framhaldsskóla. Enn erum við með hússtjórnarskóla sem eru því sem næst tómir, það hefur engin aðsókn verið að sumum þeirra mörg ár en þeim er haldið áfram af gömlum vana. Þegar jafnvel heyrast raddir frá sveitarstjórnarmönnum um að nýta það húsnæði til annarra og skynsamlegri þarfa hefur það gerst að menntmrh. hefur verið boðið kaffi af aðstandendum viðkomandi skóla og síðan gleymt málinu. (Menntmrh.: Það á ekki við um mig.) Það er ekki búið að bjóða hæstv. núv. menntmrh. í kaffi enn, það kemur kannske að því, kaffi og hnallþóruköku með og stríðstertur.

Eitt af því, sem ég held að væri tímabært að endurskoða ef það á að endurskoða allt skólakerfið, er það að hér er verið að útskrifa fólk stúdenta 19 og 20 ára gamla upp á almennt gagnfræðapróf svo sem það hefði verið fyrir nokkrum árum. Það þýðir að í mörgum tilfellum eru Íslendingar orðnir þrítugir þegar þeir eru búnir að ljúka háskólanámi og sextugir þegar þeir hætta störfum. Ég held að það væri mjög tímabært í þessari heildarendurskoðun að stefna að því að nemendur ljúki þessu svokallaða stúdentsprófi, sem virðist vera almennt inntökupróf inn í hvers kyns framhaldsnám, ekki eldri en sautján vetra gamlir. Þetta held ég að sé lítill vandi vegna þess að mér sýnist það af almennri reynslu minni sem kennari og sem foreldri að það megi þess vegna sleppa tveimur árum úr skólaskylduferli kerfisins og útskrifa nemendur jafnvel að sér bara með svolítið öðru fyrirkomulagi og ögn meiri kröfum og vinnuaga. Þetta mundi leysa mörg vandamál og er auðvitað fyrst og fremst svo út frá sjónarmiði nemenda sjálfra.

Að því er varðar þessa till. sérstaklega um að sameina þessa tvo skóla: Hvaða rök eru því helst til framdráttar? Það er jú ekki fyrst og fremst einhver fjárhagslegur sparnaður, eins og ég nefndi áðan, það er allt annað.

Að lokinni þessari almennu skólaskyldufræðslu, sem heitir stúdentspróf, leita menn til háskólanáms í mörgum greinum. Menn eru engan veginn búnir að gera það upp við sig hver starfi þeirra verður að loknu almennu háskólaprófi. Hvort heldur menn fara í nám í hinum æðstu hugvísindum, eins og stærðfræði, eða einhverjum raungreinum eða tungumálum eða einhverjum öðrum fræðum er ekki þar með sagt að menn viti það fyrir fram hvort þeir leggja fyrir sig einhver sérhæfð störf á þessum sviðum eða stunda kennslustörf.

Þess vegna er það að fyrir ekki fjölmennari þjóð væri ósköp eðlilegt að við hefðum hér einn háskóla þar sem menn sæktu menntun sína í þessum akademísku greinum. Ef menn síðar að loknu námi eða síðar á námsbrautinni vildu nýta þessa þekkingu sína sem kennarar væri eðlilegt að þeir byggju sig undir það sérstaklega. Menn læra sömu stærðfræðina hvort sem þeir nýta hana til kennslu eða ekki. Menn læra sömu tungumálin hvort sem þeir nýta þau til kennslu eða ekki.

Þessi háskóli ætti síðan að hafa einhverja sérstaka fagmenntun vegna kennslustarfsins sjálfs, þ.e. í uppeldis- og kennslufræðum og öðrum slíkum fræðum. En það er nánast eins og hliðar- eða viðbótarnám. Menn þurfa ekki að vera í sérstakri stofnun til að læra að kenna ensku eða stærðfræði. Menn eru væntanlega að læra þessar greinar á akademískum standard og sú fagmenntun, sem menn fá til kennslustarfa, er eins konar viðbótarmenntun þó að ég persónulega sé reyndar þeirrar skoðunar að mönnum verði aldrei kennt að verða kennarar hversu lærðir sem þeir ella yrðu í sínum fræðum.

Þá er spurt: Er stór skóli endilega betri en lítill? Ég er alveg sammála hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur þegar hún sagði að svo væri ekki. Háskóli Íslands er að vísu ekki stór skóli, hann er reyndar bara pínulítill skóli. Hins vegar þarf deildaskiptur háskóli heldur ekki að vera neitt risavaxið bákn. Við erum því út af fyrir sig ekki að ná neinni hagkvæmni stærðar þótt við steypum þessum skólum saman. Það er ekki málið.

Hitt er annað mál að lítill skóli er ekki endilega mjög góður skóli, hann getur verið of lítill líka. Það getur verið að einstakar háskóladeildir séu það vanburðugar að kennslukröftum eða búnaði að þær nýtist ekki. Nú eru mörg fræði í örri breytingu og það er alkunna með íslenska skóla almennt að þeir eru vanbúnir. Örtölvu­ byltingin sjálf t.d. er varla farin að halda innreið sína í sambærilegum mæli við aðrar þjóðir inn í skólastofurnar. Þetta er hjálpartækni sem á að nota í nærri því flestum kennslugreinum. Miðað við ekki stærri háskóla en Háskóli Íslands er eru hagkvæmnisrökin fyrir því að kenna greinina akademískt á einum stað með þeim besta búnaði sem völ er á í flestum tilfellum nokkuð gild.

Þýðir þetta þá að menn séu andvígir því að háskólakennsla færist út um landið? Eru menn t.d. þess vegna ekki hrifnir af hugmyndinni um það að fara að kenna ensku á háskólastigi norður á Akureyri? Ég fyrir mína parta á eftir að sjá og heyra einhver sérstök rök fyrir einhverjum sérstökum háskóla norður á Akureyri eða á Egilsstöðum eða þá vestur á Ísafirði.

Hér hefur verið flutt hið merkasta mál um fjarkennslu og að nýta miðil eins og sjónvarp í kennsluskyni. Það finnst mér í fljótu bragði miklu stærra mál, miklu þýðingarmeira mál en spurningin um að dreifa háskóladeildum hér og þar um landið. Þá á ég bæði við aðstöðu fólks til að nema á háskólastigi í gegnum þessa boðmiðla og ekki hvað síst aðstöðu fólks úti á landi, sem er fjarri bæjardyrum Háskólans, til að nýta sér þá fræðslu sem Háskólinn og hinir bestu menn okkar í hinum ýmsu fræðum gætu komið á framfæri í framhaldsmenntun og í fullorðinsfræðslu, símenntun eða hvað menn kalla þetta.

Við höfum farið þá leið að færa nærri því alla framhaldsskólamenntun upp á háskólastig. Einhver nefndi hér að þetta hefði oft verið gert ekki fyrst og fremst út af einhverju faglegu mati heldur sem þáttur í kjarabaráttu. Þannig er fullt af sérhæfðum skólum sem gera nú þá almennu kröfu til inntöku að menn hafi þetta almenna stúdentspróf og slíkir skólar eru býsna margir eins og sjá má á skránni frá Lánasjóði ísl. námsmanna t.d. Það er ekki einsýnt að það gildi þau rök um þá al'la að það sé best að sameina þá alla í einum allsherjar háskóla. Ég geri ráð fyrir því að nám í búvísindum sé vel staðsett á Hvanneyri og ég gæti ímyndað mér að námi í matvæla- og fiskvinnslufræðum væri vel komið í öflugum sjávarútvegsbæ og þyrfti ekki endilega að vera fyrirkomið í Reykjavík. Þessi rök gilda því ekki almennt séð.

En að því er varðar kennaramenntunina vil ég að lokum bara leggja áherslu á eitt. Við bætum ekkert skólakerfið á Íslandi nema að við séum sífellt að bæta kennaramenntunina sjálfa. Skóli er nefnilega ekki húsnæði, skóli er fólk og skóli er fyrst og fremst þær manneskjur sem manna skólann. Þess vegna er tómt mál að tala um skipulag, ytri ramma, endurskipulagningu, ef við höfum ekki á að skipa vel menntuðum kennurum.

Ég geri ráð fyrir því að ekki verði aftur snúið með það að kennaramenntunin verði sótt til háskóla. Og þá er ég alveg sannfærður um það, miðað við aðstæður hér á landi, að menn sækja þessa menntun best í þann háskóla sem við búum best að. Þetta þjóðfélag býr illa að kennarastéttinni. Kennarastarfið er lágt metið og það er illa launað. Á meðan svo er að óbreyttu getum við ekki búist við því til lengdar að halda í við aðrar þjóðir ekki bara í tækni og vísindum heldur að lokum ekki einu sinni í framförum í atvinnulífi.

Þeim mun betur mun kennarastéttinni sækjast að bæta sín kjör og sína starfsvirðingu ef um það verður ekki deilt að hún sé vel menntuð. Þá kemur að því fyrr eða síðar að þjóðfélagið metur það og viðurkennir, jafnvel í beinhörðum peningum. Rökin fyrir þessari till. eru því fyrst og fremst þau að við þurfum að leggja rækt við kennaramenntunina. Við göngum út frá því sem gefnu að hún fari fram á háskólastigi, annaðhvort hér á landi í Háskóla Íslands eða erlendis. Ég hygg að við getum ekki með góðu móti dreift þeim kröftum á mjög margar stofnanir.

Síðan koma þau rök að í fjölmörgum tilvikum hafa nemendur ekki tekið um það neina ákvörðun fyrir fram - ég tala nú ekki um ef þeir væru yngri þegar þeir hæfu háskólanám - hvernig þeir ætla að nýta sína háskólamenntun, hvort það verður til kennslu eða annarra hluta. Af þeim sökum er ég frekar á móti því að skilja menn að annars vegar í einhvern sérhæfðan kennaraháskóla og hins vegar í einhvern almennan akademískan háskóla strax í upphafi náms.

Í því landi, þar sem ég þekki best til skipunar framhaldsmenntunar, sem er Bretland, er almenna reglan sú að menn stunda sitt nám á háskólastigi burtséð frá því hvaða starf þeir að lokum velja sér. Síðan eru sérstakir kennaraþjálfunarskólar sem menn leita til ef þeir ætla síðar að loknu háskólanámi að leggja fyrir sig kennslustarf sérstaklega. Það fyrirkomulag miðast náttúrlega við milljónaþjóðfélag og sérstakar aðstæður þar í landi og er óþarft hér. Ef hin akademíska menntun fer fram í einum háskóla gæti hins vegar fagmenntun kennarans verið hvort heldur er í sérstakri stofnun eða þá í sérhæfðri deild innan háskólans.

Herra forseti. Að lokum þakka ég fyrir þessar umræður og vona að þessi till. geti orðið liður í löngu tímabærri endurskoðun á gildandi löggjöf um kennaramenntunina og einnig liður í þeirri heildarendurskoðun sem hæstv. ráðh. boðar að því er varðar skólakerfið í heild sinni.