20.02.1986
Sameinað þing: 50. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2691 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

226. mál, sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni till. til þál. sem upphaflega birtist í þessum sölum sem brtt. við frv. til fjárlaga. Markmið hennar er því ekki bætt stjórnun Kennaraháskóla Íslands eða almenn umhyggja fyrir þeirri stofnun heldur hitt að nýta betur fjármuni ríkisins. Nú er það góðra gjalda vert að nýta vel fjármuni ríkisins. Hitt er og verður spurning hvort fjármunir ríkisins verði betur nýttir með því að slaka á stjórnun yfir einhverri stofnun því það er fyrst og fremst í stjórnunarþættinum sem einhverjum sparnaði mætti við koma ef þetta yrði upp tekið.

Ég tel ákaflega hæpið að það leiði almennt til sparnaðar að slaka á stjórnunarþættinum. Það er ekki verið að ræða það hér að menn telji að sá húsakostur sé til staðar á Melunum að þangað megi færa alla þessa starfsemi og reka hana í einni stofnun á einum stað. Nei, þessi umræða gengur út á það að húsnæðið verði notað eins og það er í dag en yfirstjórnin verði færð frá Háteigsvegi vestur á Mela, því að ég geri ekki ráð fyrir því að 1. flm. hafi gert neinar gælur við þá hugsun að flytja bæri yfirstjórnina frá Háskólanum á Melunum að Háteigsvegi. Ég hygg að það hafi ekki hvarflað að honum. Mér er yfir höfuð ekki ljóst að við bætum stjórnun á neinni stofnun með því að flytja yfirstjórnunina frá því húsi eitthvað annað. Hverjir trúa því almennt að það sé til bóta?

Það eru vissulega sögulegar ástæður fyrir því að sú ákvörðun var tekin að hafa þessa stofnanir tvær. Ástæðan var í upphafi sú að vegna aukinnar kröfu til kennara um menntun var ákveðið að stúdentspróf yrði gert að inntökuskilyrði í Kennaraskóla Íslands og hann þar með kominn á háskólastig og honum breytt í kennaraháskóla. Með þeirri aðgerð urðu engin tengslarof við þá starfsemi sem gamli skólinn hafði staðið að. Hér var aðeins um framþróun að ræða.

Ég get tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að það hefur ekki verið nægilega vel búið að Kennaraháskóla Íslands og það hefur ekki verið nægilega vel búið að kennurum og skólum þessa lands. Þess vegna er nú ærinn órói í þeirra röðum. En ég er ekki búinn að sjá að betur yrði búið að Kennaraháskólanum ef hann yrði sameinaður Háskóla Íslands og yrði nokkurs konar útibú í verulegri fjarlægð frá aðalstofnuninni. Ég óttast mjög að við slíkar kringumstæður yrði hann hafður að hornreku.

Ég tel að þó að það sé vissulega rétt hjá flutningsmönnum að um vissa skörun geti verið að ræða í kennaramenntun á Íslandi hvað það snertir að menn geti bæði aflað sér menntunar í Kennaraháskólanum og Háskóla Íslands til sömu starfa, þá sé grunnlínan í þessum efnum alveg á hreinu, að Kennaraháskólinn hefur það markmið að mennta þá kennara sem starfa í grunnskólum landsins.

Óneitanlega sækir að manni sú hugsun þegar maður les þessa grg. að það sé ekki rétt sem sagt er á bls. 2 og haft sem lokaorð, með leyfi forseta: ,,Telja flutningsmenn að með því sé verið að styrkja og efla kennaramenntun í landinu.“

Upphafið er sparnaður, niðurlagið eru áhersluorð um að það sé verið að efla menntunina. Er það trúlegt að svo snilldarlega sé þessi till. saman sett að hún feli bæði í sér verulegan sparnað fyrir ríkið og skili einnig kennaramenntuninni langt fram á veginn? Ég er ekki trúaður á það. Mér sýnist að í hugleiðingunum, sem koma hér í miðri grg. þar sem verið er að undirstrika það að við Íslendingar séum lítil þjóð og það sé afrek að starfrækja einn háskóla, sé verið að draga frekar í land og nánast verið að biðjast undan þeirri ábyrgð að við séum hér með sjálfstæðan háskóla í landinu á sama tíma og hæstv. menntmrh. hefur hug og djörfung til að sækja fram á þessu sviði, m.a. á Akureyri og einnig með sínum hugmyndum um opinn háskóla.